Afléttingar á Landspítalanum

Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Frá og með deginum í dag verður eingöngu grímuskylda á Landspítalanum hjá starfsmönnum þegar þeir eru í beinum samskiptum við sjúklinga á spítalanum.

Þetta á bæði við um samskipti við inniliggjandi sjúklinga og göngudeildarsjúklinga. Þeir síðarnefndu þurfa að bera grímur enn um sinn. Heimsóknargestir eiga að vera með skurðstofugrímu. Þessar reglur verða endurskoðaðar eftir páska, að því er kemur fram í tilkynningu farsóttanefndar og viðbragðsstjórnar Landspítalans.

Heimsóknartími verður þrjár klukkustundir á dag á virkum dögum en fimm klukkustundir um helgar og á almennum frídögum.

Fram kemur að innlögnum vegna Covid-19 hafi fækkað og að í vikunni hafi verið ákveðið að taka lungnadeild A6 undir aðra en Covid-sjúklinga. Það hafi því miður ekki gengið eftir og vegna fjölda innlagna í gær hafi þurft að leggja Covid-sjúklinga að nýju inn á deildina.

„Það er því augljóst að COVID verður viðfangsefni enn um sinn,“ segir í tilkynningunni. Engu að síður hafi verið ákveðið að taka næstu skref í afléttingum á spítalanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert