Eðlilegt að spyrja gagnrýninna spurninga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur eðlilegt að almenningur spyrji gagnrýninna spurninga varðandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún segir mikilvægt að framkvæmdin sé hafin yfir vafa og að gerð verði úttekt á söluferlinu. Þá verði ekki hægt að ráðast í frekari sölu fyrr en niðurstaða úr henni liggi fyrir.

Forsætisráðherra segir söluferlið ekki yfir gagnrýni hafið og að eðlilegt sé að draga í efa þá aðferð sem farið var eftir. Þá þyki henni sjálfri gagnrýnisvert að ekki hafi átt að opinbera lista yfir kaupendur og talaði hún m.a. fyrir því að það yrði gert. 

Fjármálaráðherra hefur þegar farið fram á að ríkisendurskoðandi gerir úttekt á söluferlinu, sem að sögn Katrínar er m.a. gert svo allir geti fengið svör við sínum spurningum.

„Nú er það ríkisendurskoðanda að rannsaka hvort allt hafi verið í samræmi við lög og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.“

Komu ekki að valinu

Samkvæmt lýsingu sem kynnt var fyrir þinginu átti útboðinu að vera beint að hæfum fjárfestum, sem eru flokkaðir í samræmi við lög, en að sögn Katrínar var markmið fyrirkomulagsins að tryggja dreift eignarhald og langtímafjárfesta.

Í samtali við mbl.is í gær gagnrýndi Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og hagfræðingur, að félög með tengsl við aðila sem komu að bankahruninu á sínum tíma hefðu fengið að koma að borðinu. 

Þá hefur einnig verið fjallað um að félag sem er m.a. í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, hafi fengið að kaupa hluti í bankanum, en hann er með stöðu sak­born­ings í rannsókn sem varðar meint mútubrot, skattsvik og peningaþvætti, vegna starfsemi Samherja í Namibíu.

Spurð út í afstöðu hennar sem forsætisráðherra gagnvart því að slík félög hafi fengið að taka þátt í kaupunum í þessari lotu, segir Katrín hið pólitíska vald ekki hafa komið að vali fjárfesta, heldur hafi það eingöngu verið í umsjón Bankasýslunnar.

„Þegar kemur að því að ræða einhverja einstaka aðila þá höfum við ákveðið að hafa það fyrirkomulag að pólitíkin komi þar hvergi nærri heldur einmitt að þeir séu valdir af þessari stofnun sem starfar með sjálfstæðum hætti.“

Gagnrýnin eðlileg

Spurð út í þá gagnrýni að félag í eigu föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, Benedikts Sveinssonar, hafi verið meðal þeirra sem fengu að kaupa hluti í Íslandsbanka, segir Katrín mjög eðlilegt að almenningur spyrji gagnrýnna spurninga þegar verið sé að selja almenningseign.

Þá ítrekar hún að það sem sé nú mikilvægast er að það komi fram hvort að salan hafi verið í samræmi við lög, heilbrigða viðskiptahætti og lýsinguna á tilgangi útboðsins. Er það komið í ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert