Einn fluttur með þyrlu og tveir í sjúkrabíl

Snjóflóðið féll úr Skeiðsfjalli.
Snjóflóðið féll úr Skeiðsfjalli. Ljósmynd/Aðsend

Einstaklingarnir þrír sem urðu fyrir snjóflóðinu í Svarfaðardal verða allir fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar, tveir með sjúkrabíl og einn með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þar kemur fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um líðan hinna slösuðu.

Um 130 viðbragðsaðilar komu að aðgerðunum í Svarfaðardal í kvöld þar sem snjóflóð féll úr Skeiðsfjalli. Greint var frá því fyrr í kvöld að tveir hefðu slasast en einn af mönnunum þremur náði að hringja og tilkynna slysið.

Þyrla landhelgisgæslunnar lenti skammt frá vettvangi klukkan 21:10 með tvo lækna innanborðs.

Í tilkynningu lögreglu segir að mennirnir hafi verið af erlendu bergi brotnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert