Faldir fjársjóðir leynast í úrgangi

Húsdýraáburður er lífrænn og hefur lengi verið notaður á tún. …
Húsdýraáburður er lífrænn og hefur lengi verið notaður á tún. Lífrænn áburður leynist víðar og felast tækifæri í að nýta þá auðlind betur. mbl.is/Sigurður Bogi

Líf­rænn úr­gang­ur og hliðar­af­urðir eru orðnar enn mik­il­væg­ari auðlind­ir en áður til áburðarnotk­un­ar í ljósi tvö­föld­un­ar á verði inn­flutts til­bú­ins áburðar á milli ára. Því er vert að nýta þess­ar auðlind­ir í aukn­um mæli, að því er seg­ir í nýrri skýrslu frá Matís (mat­is.is). Hún heit­ir Grein­ing á magni líf­rænna áburðarefna á Íslandi og tæki­færi til auk­inn­ar nýt­ing­ar. Höf­und­ar eru sér­fræðing­arn­ir Jón­as Bald­urs­son og Eva Mar­grét Jónu­dótt­ir hjá Matís og Magnús H. Jó­hanns­son, sviðsstjóri hjá Land­græðslunni. Verk­efnið fékk styrk úr Markaðsáætl­un Rannís 2021.

Starfs­hóp­ur­inn kannaði leiðir til að nýta staðbundn­ar líf­ræn­ar auðlind­ir, auka­af­urðir úr ým­iss kon­ar fram­leiðslu og ferla til að fram­leiða sjálf­bær­an áburð fyr­ir ís­lensk­an land­búnað og land­græðslu. Gerð var út­tekt á líf­ræn­um úr­gangi sem fell­ur til á Íslandi, bæði út frá magni og nær­ing­ar­sam­setn­ingu.

Sömu nær­ing­ar­efn­in

Lang­stærst­ur hluti ak­ur­yrkju í dag not­ar til­bú­inn áburð sem ekki er alltaf fram­leidd­ur á um­hverf­i­s­væn­an hátt. Helstu nær­ing­ar­efn­in í hon­um eru nit­ur (N), fos­fór (P), kalí (K), kalk (Ca) og brenni­steinn (S) ásamt fjöl­mörg­um snefil­efn­um. Líf­rænn úr­gang­ur inni­held­ur þessi sömu nær­ing­ar­efni. Hann er þó ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk nær­ing­ar­efna eða kostnað við nýt­ingu.

Niður­stöður grein­ing­ar gefa til kynna að heild­ar­magn nit­urs, fos­fórs og kalí (NPK nær­ing­ar­efna) í líf­ræn­um úr­gangi sem fell­ur til á Íslandi séu í svipuðu magni og í inn­flutt­um til­bún­um áburði. Magn nit­urs er þó tölu­vert lægra.

„Hvað varðar tæki­færi til auk­inn­ar nýt­ing­ar ber helst að nefna fisk­eld­iss­eyru, slát­urúr­gang og ali­fugla­skít. Líf­rænn úr­gang­ur er oft­ast vatns­rík­ur og styrk­ur nær­ing­ar­efna lág­ur. Því þarf meira magn úr­gangs með til­heyr­andi flutn­ings­kostnaði eða frek­ari vinnslu til að fá svipuð áhrif og með inn­flutt­um til­bún­um áburði,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Tæki­færi til auk­inn­ar nýt­ing­ar líf­ræns úr­gangs liggja víða. Með góðum vilja mætti nýta hann all­an. Vatns­inni­hald, nær­ing­ar­inni­hald og sýk­ing­ar­hætta setja nýt­ing­unni ákveðnar skorður hvað varðar kostnað og um­hverf­isáhrif.

Líf­rænn áburður fell­ur víða til

Skýrslu­höf­und­ar gera grein fyr­ir þeim teg­und­um líf­ræns úr­gangs sem leggja þarf áherslu á.

Fyrst er nefnd­ur búfjárúr­gang­ur úr hefðbundn­um bú­skap. Hann er að miklu leyti nýtt­ur heima á bæj­um til jarðrækt­ar. Flest bend­ir til að nýt­ing­in sé góð, þótt erfitt sé að afla gagna um hana. Þá er talið upp ali­fugla­drit sem er þurr­ara en ann­ar búfjárúr­gang­ur. Mæl­ing­ar sýndu að þur­refni var 85% í hæsna­skít og um 67% í kjúk­linga­skít. „Hænsna- og kjúk­linga­skít­ur er líka nær­ing­ar­rík­ur og hent­ar t.d. mjög vel í upp­græðslu. Hann kem­ur mjög vel út í sam­an­b­urði við inn­flutt­an til­bú­inn áburð, kostnaðarlega séð og hef­ur nokkuð lægra kol­efn­is­spor en til­bú­inn áburður,“ seg­ir í skýrsl­unni. Nýt­ing ali­fugla­drits er því tal­in bæði hag­kvæm og um­hverf­i­s­væn og ætti að nota allt sem til fell­ur til land­græðslu eða land­búnaðar.

Fisk­eld­iss­eyra, það er mykja frá eld­is­fisk­um, er tal­in eiga mikla mögu­leika til frek­ari nýt­ing­ar. Hún er rík af nitri (N) og fos­fór (P) en frem­ur vatns­mik­il, eðli máls­ins sam­kvæmt. „Mögu­leik­ar til að auka nýt­ingu henn­ar sem áburðar væru t.d. að þurrka með jarðhita eða nýta hana í nærum­hverfi eld­is­stöðva til að lág­marka flutn­ings­vega­lengd,“ seg­ir í skýrsl­unni. Þar er bent á að með auknu fisk­eldi og hert­um kröf­um um söfn­un úr­gangs muni magn hans frá fisk­eldi vaxa hratt.

Svína­skít­ur er líkt og fisk­eld­iss­eyra og kúa­mykja vatnsþynnt­ur úr­gang­ur. Í hon­um er mikið af nær­ing­ar­efn­um og svína­eldi er mikið og fer vax­andi. Vegna staðsetn­ing­ar svína­búa gæti þurft að flytja skít­inn tals­verðar vega­lengd­ir til að nota hann sem túnáb­urð og enn lengra sé hann notaður til upp­græðslu. „Þrátt fyr­ir þetta er svína­skít­ur fyr­ir­taks áburður sem ætti alltaf að full­nýta frek­ar en að losa í sjó­inn eða urða með öðrum hætti,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Nýta mætti skólp til áburðar

Þá benda skýrslu­höf­und­ar á að nýt­ingu nær­ing­ar­efna úr skólpi sé mjög ábóta­vant hér á landi og nýt­ing lít­il sem eng­in. Grein­ing­ar sýna þó að í skólpi er mikið af nær­ing­ar­efn­um sem geta nýst sem áburður. Þó þarf að huga að mörgu varðandi heil­brigðismál ef nota á efni úr skólpi til áburðar og styrk efna eins og örplasts og lyfja­leifa.

Seyra er ekki sér­stak­lega nær­ing­ar­rík í sjálfri sér en ef miklu magni er dreift í einu nýt­ist hún ágæt­lega sem áburður. Bent er á að við hönn­un nýrra hverfa mætti gera ráð fyr­ir nýt­ingu úr­gangs­efna við hönn­un frá­veitna. Ein slík aðferð hef­ur verið reynd við Mý­vatn þar sem sal­ern­isúr­gangi (svart­vatni) er safnað með tvö­földu lagna­kerfi og söfn­un­ar­tanki ut­an­húss.

Kjöt­mjöl er fyr­ir­taks áburður og hef­ur verið nýtt til land­græðslu og skóg­rækt­ar. Það hef­ur síður verið nýtt til áburðar á tún vegna þess að það er sein­leyst og skil­ar sér bet­ur í upp­skeru á öðru og þriðja ári eft­ir dreif­ingu en því fyrsta.

Molta er ekki sterk­ur áburður og þarf marg­falt meira af henni en til­bún­um áburði til að ná svipuðum ár­angri. Hár flutn­ings­kostnaður hef­ur verið ein helsta hindr­un þess að bænd­ur noti moltu til áburðar. Molta er vannýtt hrá­efni og mætti lík­lega nota hana víðar við rækt­un, að mati skýrslu­höf­unda.

Jón­as Bald­urs­son sagði að vitað sé um magn nær­ing­ar­efna í slógi og fiskúr­gangi, t.d. frá fisk­eldi og fisk­vinnslu. Hins veg­ar hafa ekki bein­lín­is verið tæki­færi til auk­inn­ar nýt­ing­ar á úr­gangi frá fisk­vinnslu til áburðar þar eð þessi efni hafa al­mennt verið nýtt í verðmæt­ari afurðir.

Grein­in birt­ist fyrst í Morg­un­blaðinu laug­ar­dag­inn 2. apríl. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka