Faldir fjársjóðir leynast í úrgangi

Húsdýraáburður er lífrænn og hefur lengi verið notaður á tún. …
Húsdýraáburður er lífrænn og hefur lengi verið notaður á tún. Lífrænn áburður leynist víðar og felast tækifæri í að nýta þá auðlind betur. mbl.is/Sigurður Bogi

Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi tvöföldunar á verði innflutts tilbúins áburðar á milli ára. Því er vert að nýta þessar auðlindir í auknum mæli, að því er segir í nýrri skýrslu frá Matís (matis.is). Hún heitir Greining á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar. Höfundar eru sérfræðingarnir Jónas Baldursson og Eva Margrét Jónudóttir hjá Matís og Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri hjá Landgræðslunni. Verkefnið fékk styrk úr Markaðsáætlun Rannís 2021.

Starfshópurinn kannaði leiðir til að nýta staðbundnar lífrænar auðlindir, aukaafurðir úr ýmiss konar framleiðslu og ferla til að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Gerð var úttekt á lífrænum úrgangi sem fellur til á Íslandi, bæði út frá magni og næringarsamsetningu.

Sömu næringarefnin

Langstærstur hluti akuryrkju í dag notar tilbúinn áburð sem ekki er alltaf framleiddur á umhverfisvænan hátt. Helstu næringarefnin í honum eru nitur (N), fosfór (P), kalí (K), kalk (Ca) og brennisteinn (S) ásamt fjölmörgum snefilefnum. Lífrænn úrgangur inniheldur þessi sömu næringarefni. Hann er þó ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk næringarefna eða kostnað við nýtingu.

Niðurstöður greiningar gefa til kynna að heildarmagn niturs, fosfórs og kalí (NPK næringarefna) í lífrænum úrgangi sem fellur til á Íslandi séu í svipuðu magni og í innfluttum tilbúnum áburði. Magn niturs er þó töluvert lægra.

„Hvað varðar tækifæri til aukinnar nýtingar ber helst að nefna fiskeldisseyru, sláturúrgang og alifuglaskít. Lífrænn úrgangur er oftast vatnsríkur og styrkur næringarefna lágur. Því þarf meira magn úrgangs með tilheyrandi flutningskostnaði eða frekari vinnslu til að fá svipuð áhrif og með innfluttum tilbúnum áburði,“ segir í skýrslunni.

Tækifæri til aukinnar nýtingar lífræns úrgangs liggja víða. Með góðum vilja mætti nýta hann allan. Vatnsinnihald, næringarinnihald og sýkingarhætta setja nýtingunni ákveðnar skorður hvað varðar kostnað og umhverfisáhrif.

Lífrænn áburður fellur víða til

Skýrsluhöfundar gera grein fyrir þeim tegundum lífræns úrgangs sem leggja þarf áherslu á.

Fyrst er nefndur búfjárúrgangur úr hefðbundnum búskap. Hann er að miklu leyti nýttur heima á bæjum til jarðræktar. Flest bendir til að nýtingin sé góð, þótt erfitt sé að afla gagna um hana. Þá er talið upp alifugladrit sem er þurrara en annar búfjárúrgangur. Mælingar sýndu að þurrefni var 85% í hæsnaskít og um 67% í kjúklingaskít. „Hænsna- og kjúklingaskítur er líka næringarríkur og hentar t.d. mjög vel í uppgræðslu. Hann kemur mjög vel út í samanburði við innfluttan tilbúinn áburð, kostnaðarlega séð og hefur nokkuð lægra kolefnisspor en tilbúinn áburður,“ segir í skýrslunni. Nýting alifugladrits er því talin bæði hagkvæm og umhverfisvæn og ætti að nota allt sem til fellur til landgræðslu eða landbúnaðar.

Fiskeldisseyra, það er mykja frá eldisfiskum, er talin eiga mikla möguleika til frekari nýtingar. Hún er rík af nitri (N) og fosfór (P) en fremur vatnsmikil, eðli málsins samkvæmt. „Möguleikar til að auka nýtingu hennar sem áburðar væru t.d. að þurrka með jarðhita eða nýta hana í nærumhverfi eldisstöðva til að lágmarka flutningsvegalengd,“ segir í skýrslunni. Þar er bent á að með auknu fiskeldi og hertum kröfum um söfnun úrgangs muni magn hans frá fiskeldi vaxa hratt.

Svínaskítur er líkt og fiskeldisseyra og kúamykja vatnsþynntur úrgangur. Í honum er mikið af næringarefnum og svínaeldi er mikið og fer vaxandi. Vegna staðsetningar svínabúa gæti þurft að flytja skítinn talsverðar vegalengdir til að nota hann sem túnáburð og enn lengra sé hann notaður til uppgræðslu. „Þrátt fyrir þetta er svínaskítur fyrirtaks áburður sem ætti alltaf að fullnýta frekar en að losa í sjóinn eða urða með öðrum hætti,“ segir í skýrslunni.

Nýta mætti skólp til áburðar

Þá benda skýrsluhöfundar á að nýtingu næringarefna úr skólpi sé mjög ábótavant hér á landi og nýting lítil sem engin. Greiningar sýna þó að í skólpi er mikið af næringarefnum sem geta nýst sem áburður. Þó þarf að huga að mörgu varðandi heilbrigðismál ef nota á efni úr skólpi til áburðar og styrk efna eins og örplasts og lyfjaleifa.

Seyra er ekki sérstaklega næringarrík í sjálfri sér en ef miklu magni er dreift í einu nýtist hún ágætlega sem áburður. Bent er á að við hönnun nýrra hverfa mætti gera ráð fyrir nýtingu úrgangsefna við hönnun fráveitna. Ein slík aðferð hefur verið reynd við Mývatn þar sem salernisúrgangi (svartvatni) er safnað með tvöföldu lagnakerfi og söfnunartanki utanhúss.

Kjötmjöl er fyrirtaks áburður og hefur verið nýtt til landgræðslu og skógræktar. Það hefur síður verið nýtt til áburðar á tún vegna þess að það er seinleyst og skilar sér betur í uppskeru á öðru og þriðja ári eftir dreifingu en því fyrsta.

Molta er ekki sterkur áburður og þarf margfalt meira af henni en tilbúnum áburði til að ná svipuðum árangri. Hár flutningskostnaður hefur verið ein helsta hindrun þess að bændur noti moltu til áburðar. Molta er vannýtt hráefni og mætti líklega nota hana víðar við ræktun, að mati skýrsluhöfunda.

Jónas Baldursson sagði að vitað sé um magn næringarefna í slógi og fiskúrgangi, t.d. frá fiskeldi og fiskvinnslu. Hins vegar hafa ekki beinlínis verið tækifæri til aukinnar nýtingar á úrgangi frá fiskvinnslu til áburðar þar eð þessi efni hafa almennt verið nýtt í verðmætari afurðir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 2. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert