Fjölgun lyfjaávísana á lyfið Ivermectin í töfluformi er umhugsunarverð að sögn verkefnastjóra lyfjamála hjá embætti landlæknis.
Í gær greindi mbl.is frá því að þegar heimsfaraldur Covid-19 hófst hafi salan á lyfinu farið úr 12 pakkningum árið 2019 upp í 34 árið 2020 og svo upp í 94 pakkningar árið 2021. Það sem liðið er af ári hafa 36 pakkningar verið seldar.
Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá embætti landlæknis, segir að ekki sé verið að skoða þessar lyfjaávísanir sérstaklega, ekkert meira en ávísanir annarra lyfja. Hins vegar sé eftirlit með ávísunum allra lyfja, hvort þeim sé ávísað skynsamlega miðað við leiðbeiningar og það sem sérlyfjaskrá segir til um.
Aðspurður hvort það sé ekki óeðlilegt að sala á lyfinu tæplega þrefaldist á milli ára og sjöfaldist á tveggja ára tímabili, segir hann það vissulega geta verið það. Hins vegar sé ekki hægt að fullyrða um það.
„Við vitum ekki hvort þráðormasýkingum hafi fjölgað svona mikið, en það er ein ábendingin. Þetta er líka notað sem meðferð við kláðamaur þegar klínísk staðfesting á sýkingu liggur fyrir“ segir Ólafur.
„Við höfum ekki upplýsingar um hvaða ábendingar liggja að baki ávísunum nema það sé kallað eftir þeim frá læknum“ segir hann jafnframt.
Á Íslandi eru tvö lyf sem innihalda Ivermectin á markaði og eru þau bæði lyfseðilsskyld. Getgátur hafa verið uppi um að Ivermectin, sem á að nota við sníkjudýrasýkingum, komi að góðum notum við meðhöndlun á Covid-19 sjúkdómnum.
Rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á gagnsemi lyfsins við meðhöndlun á Covid-19 og mæla Lyfjastofnun og Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) eindregið gegn notkun lyfsins í þeim tilgangi, sem og Lyfjastofnun Evrópu.
Almennt er ætlast til að læknar ávísi lyfjum miðað við þær ábendingar sem eru tilgreindar í sérlyfjaskrá og er Covid-19 ekki gild ábending fyrir Ivermectin, að sögn Ólafs.
Verði læknir uppvís af því að ávísa lyfi óskynsamlega eða ekki í samræmi við leiðbeiningar, þannig að öryggi sjúklinga er talið ógnað, fer málið í ákveðið eftirlitsferli hjá embætti landlæknis.
„Þá er haft samband við lækni og hann beðinn um að koma með skýringar sem gætu útskýrt ávísanir,“ segir Ólafur.