Hafði áhyggjur af erlendu eftirspurninni

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, segir það hafa verið mikilvægt að fá einkafjármagn að Íslandsbanka. Ekki gangi að allt fjármálakerfið sé í eigu lífeyrissjóðanna. 

Bankasýsla ríkisins annaðist útboðið á sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka en stofnunin heyrir undir Fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ráðuneytið birti í gær hverjir tóku þátt í útboðinu eins og fram hefur komið. 

„Við hljótum að vera ánægð með að hafa náð að losa um rúmlega 100 milljarða eignahlut ríkisins í bankanum á einu ári. Við höfum laðað að bankanum marga stóra langtíma fjárfesta. Lífeyrissjóðir eru þar fyrirferðamiklir en við höfum líka náð að fá erlent eignarhald. Margir töluðu reyndar fyrir því að við ættum að selja bankann alfarið til útlanda en það þótti ekki raunhæft á þeim tíma. Í þessu útboði tóku útlendingar þátt og það skiptir máli. Einnig skiptir máli að fá einkafjármagn að bankanum. Við getum ekki lagt upp með að allt fjármálakerfið verði í eigu lífeyrissjóðanna sem myndu þá eiga stóru kerfislega mikilvægu bankanna og vera ráðandi fjárfestar í öllum fyrirtækjum á samkeppnismarkaði. Það gengur ekki upp,“ segir Bjarni en mbl.is ræddi við hann nú í morgun. Mikilvægt sé þó að lífeyrissjóðirnir hafi sýnt sölunni áhuga. 

„Við erum ánægð með að þeir sýni þessu áhuga og taki þátt af nokkrum krafti. Lífeyrissjóðirnir eru gríðarlega mikilvægur fjárfestahópur fyrir bankann og fyrir íslenska verðbréfamarkaðinn,“ segir Bjarni. 

Hvaða verð var hægt að fá fyrir 50 milljarða á einum degi?

Bjarni segir verðið vera sanngjarnt. „Það var mikilvægt að fá þetta mikla eftirspurn því það tryggði sanngjarnt verð. Stundum er talað um að bankinn hafi verið seldur með einhverjum afslætti en hér var spurningin, hvaða verð er hægt að fá fyrir rúmlega 50 milljarða á einum degi? Því var svarað í þessu opna ferli þar sem mikill áhugi var á þátttöku og ég tel að við höfum fengið fína niðurstöðu í það.“

Spurður um hvort hlutfall erlendra aðila í útboðinu hafi verið eins og hann átti von á segist Bjarni hafa haft vissar áhyggjur af erlendri eftirspurn um tíma.

„Út af ástandinu sem ríkti á þeim tíma sem salan fór fram, og þar sem erlend fjármálafyrirtæki höfðu frekar verið að lækka, þá hafði ég áhyggjur af erlendu eftirspurninni. Ég verð að viðurkenna það. En hún skilaði sér bara ágætlega og það voru aðilar sem fengu úthlutað í útboðinu sem höfðu verið með alveg frá því þeir gerðust hornsteinsfjárfestar í upphafi. Ég er því nokkuð ánægður með þátttökuna að utan.“

Smápeð í hlutahafahópnum í dag

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að rannsaka þurfi hvernig salan fór fram. Gagnrýndi hún að einstaklingar sem voru fyrirferðamiklir í bankanum fyrir efnahagshrunið 2008 og sæti rannsókn hafi tekið þátt í útboðinu. Það sé „grafalvarlegt mál.“

Mbl.is bar gagnrýni Kristrúnar undir Bjarna sem bendir á að eigendur þurfi að eiga 10% í bankanum til að ferli fari í gang með fjármálaeftirliti Seðlabankans. 

„Í þessu útboði var lagt upp með að hæfir fjárfestar gætu tekið þátt. Ég held að það sé ekki verið að halda því fram að þeir falli ekki undir þá skilgreiningu en þar ræður úrslitum að menn hafi reynslu og þekkingu. Ekki þurfi að gera kröfu um útboðslýsingu til að þeir taki þátt.

Þegar hins vegar er vísað til sögunnar, og að hún geymi einhver dæmi um að menn séu ekki heppilegir eigendur, þá reynir á það ef menn fara upp fyrir ákveðin eignamörk í fjármálafyrirtækjum. Það reynir á það ef menn fara upp í 10% og eru þá orðnir virkir eigendur. Þá fer af stað ferli með þátttöku fjármálaeftirlits Seðlabankans þar sem menn þurfa leyfi til að fara með eignahlutinn. Það eru reglurnar sem gilda í þessu efni. Þessir aðilar sem vísað er til eru alger smápeð í hluthafahópnum í dag,“ segir Bjarni. 

Ekki lagt til að setja lágmarks þröskuld

Athygli vekur að í útboðinu eru nokkuð margir sem keyptu fyrir tiltölulega litlar upphæðir séu þær eru skoðaðar í þessu samhengi eins og sölu á banka. 

„Þarna er í raun og veru verið að spyrja að því hvort við hefðum átt að setja lágmarksviðmið, þ.e.a.s ekki væri hægt að taka þátt nema viðkomandi kæmi með að lágmarki einhverja fjárhæð. Það fór svo sem ekkert fyrir þessum vangaveltum fyrir útboðið. Við leituðum umsagnar Alþingis og það var ekki lagt til af þinginu né Bankasýslunni að setja einhvern lágmarks þröskuld fyrir þátttöku.

Jón Gunnar Jónsson er forstjóri Bankasýslunnar sem annaðist útboðið.
Jón Gunnar Jónsson er forstjóri Bankasýslunnar sem annaðist útboðið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í þessu sambandi má svo sem rifja upp að þegar þessir einkafjárfestar tóku þátt í almenna útboðinu þá voru þeir flestir skornir niður. Að uppistöðu til þá fengu þeir ekki nema eina milljóna úthlutaða, sama hvað þeir buðu.  Segja má að þessi fjárfestahópur hafi að verulegu leyti verið jaðarsettur í almenna útboðinu til að skapa rými fyrir almenning og langtímafjárfesta.  Ef við hefðum sett ströng skilyrði fyrir þátttöku einkafjármagnsins í þessu útboði þá held ég að það hefði einfaldlega bitnað á verðinu. Jafnvel þótt þarna séu dæmi um tiltölulega lágar fjárhæðir þá safnast þetta nú saman þegar þetta er allt lagt saman og er því mikilvægur þáttur í útboðinu í heild sinni,“ segir Bjarni Benediktsson ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert