Fjórir voru sakfelldir fyrir hrottalega frelsissviptingu á manni í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær. Verknaðurinn átti sér stað á Akureyri í september 2017.
Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef héraðsdóms en Rúv greinir frá þessu. Fram kemur að þrír þeirra sem voru ákærðir séu meðal annars sakfelldir fyrir hrottalega atlögu og hótanir gagnvart manninum á meðan hann var í haldi í nærri sex tíma.
Manninum hafi verið haldið í gluggalausri geymslu yfir nóttina og var ítrekað beittur grófu ofbeldi og misþyrmingum ásamt því að vera ógnað með tækjum. Honum var einnig hótað að vera hent í Goðafoss.
Þórður Már Sigurjónsson, forsprakki frelsissviptingarinnar, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi en hinir fengu skilorðsbundinn dóm, þar á meðal barnsmóðir brotaþola. Þeim var jafnframt gert að greiða brotaþola 3,5 milljónir í miskabætur.
Þá kemur fram að Þórður Már hafi verið sakfelldur ásamt öðrum manni fyrir aðra frelsissviptingu, ólögmæta nauðung, rán og tilraun til fjárkúgunar. Þeim var gefið að sök að hafa hótað brotaþola með kartöflugaffli og ostaskera, rakað af honum stóran hluta hársins og valdið honum mikilli andlegri þjáningu. Sá verknaður átti sér stað í október 2020 þegar brotaþoli var 18 ára gamall.