Meitilshúsið fái nýtt hlutverk

Meitilshúsið var reist árið 1955 og setur svip á umhverfið.
Meitilshúsið var reist árið 1955 og setur svip á umhverfið. mbl.is/Sigurður Bogi

Hugmyndir eru um að breyta og stækka byggingu þeirri í Þorlákshöfn sem áður hýsti fiskvinnslu Meitilsins og fleiri fyrirtæki, og koma þar fyrir íbúðum, veitingastöðum, verslunum, skrifstofum og annarri starfsemi. Í dag er húsið 3.860 fermetrar og um 12 metrar á hæð, en áform sem fyrir liggja gera ráð fyrir stækkun í tæplega 9.000 fermetra og að byggingin verði hæst 18 metrar. Hafnarskeið ehf. stendur á bak við þessi áform og nú liggur fyrir hjá Sveitarfélaginu Ölfusi ósk um breytingar á aðal- og síðar deiliskipulagi þessu viðvíkjandi.

Umrædd bygging er við götuna Hafnarskeið og stendur nærri fjörukambi við svonefnda Norðurvararbryggju. Húsið var reist árið 1955 og þar var fiskvinnsla Meitilsins fram undir aldamót. Önnur sjávarútvegsfyrirtæki voru síðar með starfsemi í húsinu, sem nú bíður nýtt hlutverk.

Hafnarskeið ehf. keypti Meitilshúsið, eins og það er jafnan kallað, fyrir nokkru og hugmyndir um framtíðarhlutverk þess eru stórar, eins og að framan er lýst. Að Hafnarskeiði standa fjárfestarnir Bernharð Bogason og Magnús Ármann, Ingvar Þórðarson kvikmyndaleikstjóri og Helgi Gunnlaugsson, sem er talsmaður verkefnisins.

„Við erum ágætlega settir með fjármögnun þessa verkefnis og gætum farið af stað fljótlega, eða þegar skipulagsmálin hafa verið til lykta leidd. Í Þorlákshöfn á sér stað mikil uppbygging á ýmsum sviðum um þessar mundir. Við viljum taka þátt í þeirri þróun og trúum að þarna séu tækifæri til framtíðar,“ segir Helgi. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert