„Kemur til greina, að hans mati, að breyta um kúrs hvað varðar það sem eftir er af eignarhlut ríkisins í þessum banka og fara til að mynda þá leið að afhenda öllum Íslendingum til jafns hlut í bankanum?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, þar sem hann spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Sigmundur sagði að það myndi þýða að fjögurra manna fjölskylda fengi þar með hlut sem væri yfir milljón krónur að verðmæti og allur almenningur hefði aðkomu að fjármálakerfinu.
Bjarni sagði þetta koma til greina af sinni hálfu en hann hefði ekki fundið samhljóm hjá samstarfsflokkum sínum, Framsóknarflokknum og VG, við slíkri hugmynd til að hrinda henni í framkvæmd.
„Í ljósi þess hversu mikið virði bankans hefur hækkað í höndum ríkisins, þó ekki væri nema bara frá almenna útboðinu þegar bankinn var metinn í kringum 150 milljarða en núna yfir 250 milljarða, þá finnst mér það vel koma til greina að við ráðstöfum hluta ávinningsins af hækkun á markaðsvirði bankans beint til Íslendinga,“ sagði Bjarni.
Sigmundur sagði þetta mikil tíðindi og bætti því að hann vissi ekki að fjármálaráðherra ætti í vandræðum með að fá fólk til að samþykkja kosningastefnu Miðflokksins um að afhenda hlut í Íslandsbanka beint til almennings í landinu.