Þörf fyrir enn fleiri íbúðir

Mikið er byggt í Hamarsnesi og Skarðshlíð.
Mikið er byggt í Hamarsnesi og Skarðshlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir áframhaldandi skort á íbúðum þrátt fyrir að íbúðum í byggingu hafi fjölgað. Þetta er niðurstaða Samtaka iðnaðarins (SI) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem töldu íbúðir í byggingu á landinu öllu í febrúar og mars 2022. Framkvæmdir voru hafnar við byggingu 7.260 íbúða á landinu öllu. Þeim hafði fjölgað um 1.276 íbúðir (21%) frá því talið var í september 2021.

SI og HMS áætla að 2.453 nýjar íbúðir komi á markað á landinu öllu á þessu ári og 3.098 árið 2023, eða samtals 5.551 íbúð. „Til samanburðar má nefna að það er mat HMS að þörf fyrir fullbúnar íbúðir sé um 3.500 til 4.000 á ári þ.e. 7.000 til 8.000 íbúðir þessi tvö ár. Það er því ljóst að áfram verður framboðsskortur á íbúðum þrátt fyrir þann vöxt sem nú sést í fjölda íbúða í byggingu,“ segja SI og HMS.

Aukningin dugar ekki til

„Lóðaframboð hefur ekki verið nægt og skipulagsmál hafa haldið aftur af uppbyggingu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, spurður hvers vegna framboð nýrra íbúða mætir ekki þörfinni. Mikil fjölgun íbúða í byggingu er aðallega á fyrstu byggingarstigum. „Þetta eru ný verkefni og koma kannski á markað á næsta ári og eitthvað á þessu ári. Þótt það sé aukning þá er hún ekki nóg,“ segir Sigurður. Hann segir að ríki og sveitarfélög þurfi að taka höndum saman varðandi íbúðauppbyggingu. „Ég fagna því að Reykjavíkurborg hefur birt metnaðarfull áform um að byggðar verði 2.000 íbúðir á ári næstu árin. Eins er mikil uppbygging í Hafnarfirði. Ég vildi gjarnan sjá fleiri sveitarfélög setja sér markmið og flýta uppbyggingu íbúða.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert