Töluverð aukning slysa og slasaðra

Fjöldi slasaðra og látinna í fyrra voru 1162 einstaklingar en …
Fjöldi slasaðra og látinna í fyrra voru 1162 einstaklingar en árið á undan voru það 1015. Ljósmynd/Rannsóknarnefnd umferðarslysa

Árið 2021 var mjög sérstakt ár, bæði hvað varðar umferðaröryggi en einnig þjóðfélagið í heild. Var þetta annað árið í röð þar sem heimsfaraldurs gætti en árin 2020 og 2021 eru þó gerólík hvað varðar umferðaröryggið. 

Um töluverða aukningu slysa og slasaðra er að ræða, að því er fram kemur í slysaskýrslu umferðaslysa sem Samgöngustofa hefur tekið saman fyrir árið 2021.

Fleiri slösuðust en árið áður

Fjöldi slasaðra og látinna í fyrra voru 1162 einstaklingar en árið á undan voru það 1015. Árið í fyrra er reyndar undir 10 ára meðaltali frá 2012 til 2021 sem er 1219 og má því segja að til lengri tíma litið sé þróunin í rétta átt.

Á síðast ári létust 9 í umferðinni hér á landi og er það einum fleiri en árið á undan og lægra en meðaltal 10 ára sem er 11,9. Það vekur athygli hve stórt hlutfall þeirra sem létust árið 2021 voru gangandi eða hjólandi (á reiðhjóli eða rafhlaupahjóli). Fjórir í þeim hópi vegfarenda létust innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Fimm voru í fólksbifreiðum utan þéttbýlis,“ kemur fram í skýrslunni.

Mikið um ölvunarslys á rafhlaupahólum

Tekið er fram að fjöldi slysa sem verður á rafhlaupahjólum veki athygli. Mikið sé um ölvunarslys á þeim og verða mörg slysanna um helgar.

Af þeim 208 sem slösuðust alvarlega eða létust í umferðinni voru 35 á rafhlaupahjóli, þ.e. 16,8% en í fyrra varð í fyrsta skipti banaslys þar sem ökumaður á rafhlaupahjóli lést. Slys á rafhlaupahjólum vega því mjög þungt í fjölda slysa árið 2021. Þó ber að geta þess að ef þau væru tekin út úr menginu væri samt aukning á fjölda alvarlega slasaðra og látinna en þó mun minni - aðeins 13% í stað 32,5%.

Töluvert er um slys vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs á rafhlaupahjóli. Þau eru þó talin vanskráð. Samkvæmt viðhorfskönnun sem Samgöngustofa gerði í lok síðasta árs hafa 42% landsmanna prófað rafhlaupahjól og af þeim hafa 29% notað þau undir áhrifum áfengis. Það þýðir að 12,2% af allri þjóðinni (18 ára og eldri) hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis.

Skv. sömu viðhorfskönnun hafa 79% í aldurshópnum 18-24 ára prófað rafhlaupahjól og af þeim hafa 40% notað þau undir áhrifum áfengis. Það þýðir að 31,6% fólks á aldrinum 18-24 ára hafa notað rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka