Tveir slösuðust þegar að snjóflóð féll úr Skeiðsfjalli í Svarfaðardal í kvöld og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð á vettvang.
Samkvæmt tilkynningu lögreglu féll snjóflóðið fyrir ofan bæinn Skeið og urðu þrír aðilar fyrir flóðinu, þar á meðal einn sem tilkynnti það. Hópslysaáætlun almannavarna var virkjuð og óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang klukkan 19:55 og fundu þeir strax tvo menn, og var annar þeirra slasaður. Stuttu síðar fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og hafði hann einnig slasast.
Unnið er að því að koma þeim sem slösuðust á sjúkrahús en ekki var unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Búast má við frekari upplýsingum seinna í kvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.