Haldin verður hátíð um páskana í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands. Skák, sirkuslistir, músík og myndlist eru á dagskrá hátíðarinnar.
Velferðarsjóðurinn Vinátta í verki, í samvinnu við Grænlandsvini í Kalak og Veraldarvini, auk fjölda íslenskra og grænlenskra fyrirtækja og félaga, standa fyrir hátíðinni. Skákfélagið Hrókurinn stóð fyrir árlegum hátíðum í Ittoqqortoormiit 2007-2019 og því er Grænlandsvinum mikið ánægjuefni að hátíðin skuli nú endurvakin eftir tveggja ára hlé.
Leiðangursmenn eru Axel Diego sirkuslistamaður og margreyndur Grænlandsfari með Hróknum, Linus Orri Gunnarsson Cederborg tónlistarmaður, skákmaður og sirkuslistamaður og hin bandaríska Sage Sovereign sem er ein fremsta sirkuslistakona samtímans.
Hátíðin stendur 11. til 20. apríl og verður slegið upp fjöltefli, meistaramóti í skák, sirkusskóla, listsmiðju og tónleikum.
Bakhjarlar hátíðarinnar eru sveitarfélagið Sermersooq, Norlandair, Air Greenland, Tusass, Brim hf., Fulltingi, Bónus, Hagkaup, Extrakaup, Forlagið, Margt smátt, Penninn, Krumma, Ásgarður og íslenskar prjónakonur og aðrir velunnarar grænlenskra barna. Skipuleggjandi hátíðarinnar er Hrafn Jökulsson.
Meginmarkmið hátíðarinnar er að skapa gleðistundir fyrir börn, ungmenni og aðra íbúa í Ittoqqortoormiit. Leiðin Hróksins lá þangað fyrst fyrir 15 árum og Ittoqqortoormiit er mesta skákþorp Grænlands, og jafnframt það þorp þar sem ísbirnir gera sig oftast heimakomna.