Fjárfestir segir bréfin hafa verið undirverðlögð

Sala á hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka fór fram 22. mars.
Sala á hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka fór fram 22. mars. mbl.is/Árni Sæberg

Jakob Valgeir Flosason fjárfestir telur að hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka hafi verið undirverðlögð en hann keypti hlut í bankanum fyrir tæpan milljarð í útboðinu.

Í viðtali við Fréttablaðið segir Jakob að ekki þurfi að gagnrýna kaupendur þar sem þeir hafi fylgt reglum útboðsins og uppfyllt skilyrði þess, en verðið sem bréfin voru seld á sé umhugsunarvert. 

Hann telur að ríkið hefði frekar átt að selja til fárra en öflugra kjölfestufjárfesta. Það hafi hins vegar ekki verið gert.

„Í staðinn voru það aðallega lífeyrissjóðirnir sem pressuðu verðið niður í þessar 117 krónur á hlut. Ég veit það fyrir víst að ríkið hefði getað selt á genginu 122 ef þeir hefðu einbeitt sér að þeim sem voru tilbúnir til að borga meira,“ segir Jakob í viðtalinu en hann óskaði sjálfur eftir að kaupa mun stærri hlut í bankanum en hann gerði. 

Ein kona á lista fjárfesta

Í viðtali við Rúv í morgun vakti Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, athygli á því hversu fáar konur hafi fjárfest í bankanum.

Á lista yfir þá sem keyptu í bankanum fann Kristín einungis eitt kvenmanns nafn af 209.

Hún sagði þó að mörg fyrirtæki séu á listanum en flest þeirra eru að meirihluta í eigu karlmanna.

Katrín sagði listann gefa skýra mynd af kynjahallanum á fjármálamarkaðinum, en listinn sé þó heldur ýkt birtingarmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert