Miðflokksmenn lyftu líka Vigdísi

Sigmundur Davíð og Bergþór taka þátt í glensinu.
Sigmundur Davíð og Bergþór taka þátt í glensinu.

Myndin sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vildi helst ekki vera á, hefur nú farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Myndin var tekin á flokksþingi sem haldið var í tengslum við Búnaðarþing, en á henni halda þrír starfsmenn Bændasamtakanna á Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra samtakanna, í einhvers konar planka. Sigurður Ingi stendur svo þar fyrir aftan.

Þegar til stóð að framkvæma myndatökunna á Sigurður Ingi að hafa látið óviðurkvæmileg orð falla í garð Vigdísar. Sigurður hefur beðist afsökunar á ummælunum en hefur ekki viljað endurtaka og því liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað sagt var. Vigdís skrifaði hins vegar yfirlýsingu á Facebook þar sem hún sagði ummælin hafa verið afar særandi.

Haft hefur verið eftir Sigurði Inga að mikill gleðskapur hafi verið þetta kvöld og að reynt hafi verið að fá hann í myndatöku sem honum þótti ekki viðeigandi. Ef rýnt er í myndina má sjá að honum virðist ekki líða sérstaklega vel með veru sína þar, en hann er sá eini sem heldur ekki undir Vigdísi og stendur fyrir aftan hópinn.

Glögglega má sjá að Sigurður Ingi er ekki sérstaklega spenntur …
Glögglega má sjá að Sigurður Ingi er ekki sérstaklega spenntur fyrir myndatökunni.

Þingmenn Miðflokksins til í myndatöku

Uppstillingin virðist hins vegar almennt vera notuð við myndatökur á Búnaðarþingi því samskonar mynd var tekin af Vigdísi og þingmönnum Miðflokksins á flokksþingi, ásamt starfsmönnum Bændasamtakanna. En þar halda þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason undir Vigdísi og virðast kampakátir.

Í gær var greint frá því að Sigurður Ingi og Vigdís ætluðu að hittast á fundi í dag ásamt stjórn Bændasamtakanna. Þegar mbl.is ræddi við Gunnar Þorgeirsson, formann Bændasamtakanna, fyrir stundu, hafði fundurinn þó ekki farið fram, en Sigurður Ingi situr nú á ríkisstjórnarfundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert