Ófullnægjandi skýrsla kostar EY 114 milljónir

Sameinað Sílikon hf var dæmt 114 milljónir í skaðabætur.
Sameinað Sílikon hf var dæmt 114 milljónir í skaðabætur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young og Rögnvaldur Dofri Pétursson voru í dag dæmd til að greiða þrotabúi Sameinaðs Sílikons ríflega 114 milljón króna í skaðabætur auk vaxta og tvær milljónir króna í málskostnað. Landsréttur sneri þar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þegar EY og og Rögnvaldur voru sýknuð.

Þóttu Ernst & Young og Rögnvaldur Dofri hafa sýnt af sér saknæma vanrækslu við gerð sérfræðiskýrslu sem gerð var fyrir félagið og talin var hafa valdið því tjóni.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í febrúar 2021 sýknað Rögnvald Dofra og Ernst & Young af kröfunum og var Sameinuðu Sílikoni gert að greiða þeim 3,5 milljónir króna í málskostnað.

Málinu var áfrýjað til Landsréttar í mars á síðasta ári og þess krafist að Ernst & Young og Rögnvaldi Dofra verði gert að greiða 405.280.000 krónur ásamt vöxtum.

Greiðslan ófullnægjandi

Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. hafði krafist skaðabóta á grundvelli saknæmrar háttsemi við gerð sérfræðiskýrslu sem laut að verðmæti greiðslu USI Holding B.V. fyrir 405.280.000 hluti í Sameinuðu Sílikoni en greitt var fyrir hlutina með öllum hlutum í Geysi Capital ehf..

Byggði þrotabúið kröfu sína á því að greiðslan fyrir hlutaféð hefði verið ófullnægjandi  og að fjármuni hafi því vantað í sjóði Sameinaðs Sílikons þegar félagið fór í þrot.

Í dómi Landsréttar kemur fram að forsendur sérfræðiskýrslunnar hefðu verið ófullnægjandi um ávöxtunarkröfu og rekstrarkostnaðarhlutfall Geysis Capital. Þá hafi hún ekki verið unnin af þeirri kostgæfni sem ætlast yrði samkvæmt lögum um hlutafélög. Sýndu Ernst & Young og Rögnvaldur Dofri þar með saknæma vanrækslu við gerð hennar.

Stuðluðu að lægri greiðslu

Með skýrslunni hefðu Ernst & Young og Rögnvaldur Dofri stuðlað að því að greiðsla USI Holding B.V. fyrir hluti í Sameinuðu Sílikoni hefði verið lægri en sem nam nafnverði þeirra í andstöðu við lög um hlutafélög.

Var því litið svo á að Sameinað Sílikon hegði orðið fyrir tjóni sem næmi mismun á nafnverði hlutanna og var Ernst & Young og Rögnvaldi Dofra sameiginlega gert að greiða þrotabúinu 114.280.000 krónur í skaðabætur auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert