Reiknar með að stjórnarmeðlimir virði hennar umboð

Sólveig Anna Jónsdóttir tekur við sem formaður Eflingar á aðalfundi …
Sólveig Anna Jónsdóttir tekur við sem formaður Eflingar á aðalfundi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í kvöld fer fram aðalfundur Eflingar og jafnframt stjórnarskipti í stjórn félagsins. Sólveig Anna Jónsdóttir tekur þá við sem formaður og sjö einstaklingar af Baráttulistanum koma nýir með henni inn í stjórn.

Þar sem kosið er til stjórnar á tveggja á ára fresti þá sitja sjö stjórnarmeðlimir áfram í ár til viðbótar. Sólveig óttast ekki að þeir einstaklingar komi til með að „halda áfram að valda skaða fyrir félagsfólk og fyrir félagið,“ líkt og hún orðar það.

Agnieszka Ewa Ziólkowska, fráfarandi formaður Eflingar, fer aftur í embætti varaformanns og Ólöf Helga Adolfsdóttir, fráfarandi varaformaður, í embætti ritara við stjórnarskiptin. Báðar eiga þær ár eftir af stjórnarsetu sem kjörnir fulltrúar í stjórn.

Sólveig segir í samtali við mbl.is að stjórnarskiptin leggist mjög vel í hana og hún reikni með því að aðrir stjórnarmeðlimir virði það umboð sem hún hafi fengið til að leiða félagið. Hún hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um hvort hún mæti á skrifstofuna á mánudaginn.

„Ég og félagar mínir á baráttulistanum höfum afdráttarlaust umboð til að leiða félagið. Við erum búin að bíða vikum saman að taka við og í okkar huga er þetta gleðidagur að öllu leyti,“ segir Sólveig sem var í óða önn að undirbúa sig fyrir kvöldið þegar blaðamaður náði tali af henni.

Sagði Sólveigu málsvara sundrungar 

Ýmislegt hefur gengið á frá því Sólveig sagði af sér formennsku í félaginu í lok október á síðasta ári, en það var þá sem Agnieszka fór úr varaformannsembættinu í embætti formanns og Ólöf fór út því að vera ritari í að vera varaformaður.

Ólöf bauð sig svo fram til formanns og tókust þær Sólveig á í formannsslag. ÓIöf hefur sagt að henni hafi fundist Sólveig hafa farið yfir strikið þegar kemur að starfsfólki á skrifstofu Eflingar. Hún hafi stillt því þannig upp að starfsfólkið væri á móti verkalýðnum. Það hafi verið mjög ósanngjarnt. í viðtali við mbl.is í vikunni sagði hún jafnframt að Sólveig yrði að bera virðingu fyrir starfsfólkinu. Þá ritaði Agnieszka grein sem birtist á Vísi í kosningabaráttunni þar sem hún sagði Sólveigu málsvara sundrungar.

Frá því Sólveig náði kjöri í febrúar hefur hún ítrekað haldið fram að starf­andi for­ysta Efl­ing­ar sé umboðslaus, en trúnaðarráð Efl­ing­ar ályktaði um að aðal­fundi skyldi flýtt og hann hald­inn fyr­ir 15. mars. Við því var ekki orðið. Held­ur hafi frá­far­andi formaður notað tím­ann til að dylgja um hana og Viðar og reynt að finna á eitt­hvað á þau með því að panta lög­fræðiút­tekt­ir.

Ólöf hafi lagst „ömurlega lágt“

Í gær skrifaði Sólveig svo langa færslu á Facebook þar sem hún gagnrýndi fráfarandi varaformann fyrir ýmislegt. Sagði meðal annars að Ólöf hefði ekki átt að „leggjast svo ömurlega lágt“ láta félagið senda sérstaka fréttatilkynningu til allra fjölmiðla með „grófum ærumeiðingum og rógburði“ um hana og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, í miðri kosningabaráttu. Vísar Sólveig þar væntanlega til tilkynningar um niðurstöður vinnustaðagreiningar sem ráðgjafa- og sálfræðistofan Líf og sál vann fyrir Eflingu, en samkvæmt niðurstöðum hennar brugðust bæði Sólveig og Viðar skyldum sínum.

Þá greindi trúnaðarmaður starfs­fólks Efl­ing­ar frá því í viðtali við mbl.is í byrj­un fe­brú­ar að meiri­hluti starfs­fólks­ins á skrif­stof­unni óttaðist end­ur­komu Sól­veig­ar sem for­manns fé­lags­ins. Fólk hafi upp­lifað kvíða og van­líðan ein­hverj­ir talið að þeim yrði ekki stætt í sínu starfi.

Sól­veig sagði í viðtali við mbl.is eft­ir end­ur­kjörið í fe­brú­ar að hún skildi að þeir sem hefðu farið fram með gíf­ur­yrðum og gert aðför að mann­orði henn­ar óttuðust end­ur­komu henn­ar. Hún gæti ekki ímyndað sér að það fólk hefði áhuga á að starfa á sama vinnustað og hún.

Spurð hvort hún ætli að mæta á skrifstofuna á mánudaginn, segir Sólveig:

„Ég hef ekki ákveðið það. Við sjáum bara hvað gerist.“

„Framferði þeirra náttúrulega dæmir sig sjálft“

Líkt og fram hefur komið þá verður Agnieszka varaformaður í stjórninni og Ólöf ritari og aðspurð hvernig hún sjái fyrir sér að samastarf á vettvangi stjórnar muni ganga segist Sólveig ekki hafa áhuga á að ræða þetta í dag. Hún ætli að fagna með sínum félögum og ætli ekki að ræða samskipti sín við fráfarandi formann og varaformann.

Ólöf Helga Adolfsdóttir og Agnieszka Ewa Ziólkowska fara aftur í …
Ólöf Helga Adolfsdóttir og Agnieszka Ewa Ziólkowska fara aftur í embætti sín sem ritari og varaformaður. mbl.is/Ásdís

Aðspurð hvort ósætti við aðra stjórnarmeðlimi varpi einhverjum skugga á gleðina sem fylgir því að taka við formennskunni á ný, segir Sólveig:

„Framferði þeirra, hvort það varpi skugga? Framferði þeirra náttúrulega dæmir sig sjálft. En nei, þær hafa ekki getuna eða valdið hvorki yfir mér né félögum mínum til að varpa skugga á okkar gleði yfir því að hafa sigrað kosningarnar og yfir því að vera loksins að taka við forystu í félaginu.“

En óttastu ekki að það verði átök innan stjórnarinnar sem muni hafa slæm áhrif?

„Ég hef ekki áhyggjur af því að það fólk sem tapaði í kosningum, það fólk sem er umboðslaust, ætli sér að nota vettvang stjórnar til að halda áfram að valda skaða fyrir félagsfólk og fyrir félagið,“ segir Sólveig og bætir svo við:

„Ég hef skýrt umboð félagsfólks Eflingar til að leiða starf stjórnar, til þess að leiða félagið. Það mun ég gera. Full baráttuvilja og full metnaðar fyrir hönd þessa langstærsta félags verka- og láglaunafólks í landinu. Það veitir ekki af.“

Gerir ráð fyrir að virðing verði borin fyrir umboðinu

Spurð hvort stjórnin öll þurfi ekki að vinna saman segir Sólveig að beina skuli spurningum um „samvinnufærni þeirra til þeirra“ hún hafi ekki áhuga á að svara fyrir þær. Vísar hún þar til fráfarandi formanns og varaformanns. Þegar blaðamaður bendir á að fráfarandi varaformaður hafi nú þegar svarað þessari spurningu á þá leið að hún geti starfað með hverjum sem er, segir Sólveig:

„Ég hef klárlega umboð félagsfólks, sem hefur nú í annað sinn kjörið mig til að leiða félagið og ég náttúrulega reikna með því að stjórnarmeðlimir virði það umboð.“

En þarf ekki eitthvað samtal að geta átt sér stað innan stjórnar?

„Bara aftur, þú verður að spyrja þær um færni þeirra og vilja til samstarfs. Það er þeirra að svara því.“

Verður þetta þá þannig að þú ræður, eða hvernig sérðu þetta fyrir þér?

„Ég sé það fyrir mér að fyrir því umboði, sem ég hef sannarlega fengið nú í annað sinn til að leiða félagið, verði borin virðing á vettvangi stjórnar,“ segir Sólveig.

Í samtali við mbl.is fyrr í vikunni sagði Ólöf að stjórnarmeðlimir hlytu að geta haft ólíkar skoðanir en samt unnið saman.

„Skoðana­skipti eru mjög mik­il­væg við stjórn­ar­borðið. Við eig­um bara endi­lega að vera ósam­mála og ólík, eins og fé­lags­menn­irn­ir okk­ar eru. Ég held að það sé mik­il­vægt,“ sagði Ólöf meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert