Róttækar breytingar verði kynntar fyrir sumarið

Hjalti Már Björnsson yfirlæknir.
Hjalti Már Björnsson yfirlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans vonast til þess að kynntar verði fyrir sumarið róttækar breytingar á heilbrigðiskerfinu til að hægt verði að veita betri þjónustu en nú er í boði.

„Við bíðum eftir að nýr ráðherra og forstjóri Landspítalans komi því í verk að gera þær róttæku endurskipulagningu á heilbrigðiskerfinu sem þarf til þess að það geti farið að veita ásættanlega þjónustu fyrir almenning,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku.

Sú vinna muni að öllum líkindum byggja á vandaðri úttekt McKinsey-hópsins sem var nýlega birt á vef heilbrigðisráðuneytisins. Læknar geri þó athugasemdir við að þar hafi ekki verið gert með fullnægjandi hætti ráð fyrir mönnun til að ná ásættanlegu nýtingarhlutfalli á sjúkrarúmum á Landspítalanum.

Þurfa að geta brugðist við stórverkefnum

„Bráðaþjónusta verður alltaf að hafa einhvern möguleika til að bregðast við álagstoppum. Við getum ekki rekið slökkvilið sem er alla daga hlaðið verkefnum allan daginn, heldur verðum við að hafa viðbragð til að bregðast við stórverkefnum,“ segir Hjalti Már og nefnir sem dæmi hópslys og farsóttir. „Það verður allt að vera borð fyrir báru til að sinna slíkum stórverkefnum í bráðaþjónustu.“

Hjúkrungarfræðingar á þönum á bráðadeild Landspítala.
Hjúkrungarfræðingar á þönum á bráðadeild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Staðan á bráðamóttökunni er álíka slæm og hún var þegar mbl.is ræddi við Hjalta Má fyrir um mánuði síðan. Venjulega þurfa um 20 til 30 sjúklingar sem hafa lokið bráðameðferð innlögn en eru enn vistaðir á bráðamóttöku Landspítalans, segir hann. Sömuleiðis sé mikið álag á legudeildum spítalans.

Hjalti Már segir kerfið enn vera að jafna sig eftir Covid-faraldurinn en þurfi núna að takast á við kröftugan inflúensufaraldur sem auki álagið á öllu kerfi Landspítalans. Hann segir heilbrigðisstarfsfólk einnig vera mjög þreytt eftir annasaman tíma síðustu tveggja ára.

mbl.is/Hjörtur

Um 20 stöðugildi hjúkrunarfræðinga vantar á bráðadeild og segir Hjalti Már það mjög alvarlega stöðu og skerði mjög möguleikann á að veita eins góða þjónustu og kostur er. Engu að síður reyni starfsfólk sitt besta og forgangsraði eftir alvarleika veikinda.

Stjórnendur hljóta að bera ábyrgð 

Hjúkrunarfræðingar á bráðadeild hafa krafist þess að stjórnvöld og Landspítalinn staðfesti skriflega að ábyrgðin liggi þar en ekki hjá hjúkrunarfræðingum ef upp koma alvarleg atvik sem má rekja beint eða óbeint til álags á bráðamóttökunni.

Spurður hvort hann sé sammála þessari afstöðu segir Hjalti Már að gefa þurfi starfsfólki forsendur til að vinna samkvæmt gæðastöðlum.

„Ef Landspítali útvegar skurðlækni ekki hreina skurðstofu heldur óhreina skurðstofu þá getur skurðlæknir ekki verið ábyrgur fyrir sýkingum sem koma upp. Þegar starfsfólki bráðamóttöku er gert það að sinna sjúklingum á göngum deildarinnar á yfirfullri deild með undirmönnun þá gefur að skilja að stjórnendur heilbrigðiskerfisins sem létu þetta gerast hljóta að bera ábyrgð þegar atvik verða þar sem ekki er unnt að fylgja eðlilegum gæðastöðlum í þjónustunni,“ segir yfirlæknirinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert