„Það á að keyra málið í gegn“

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is

Fyrirhuguð uppbygging íbúabyggðar við Reykjavíkurflugvöll hefur vakið spurningar um flugöryggi vallarins vegna framkvæmda og breytinga á vindafari. Í viðtali við Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia – innanlandsflugvalla í Morgunblaðinu 11. febrúar sl., segir hún að bæði Hlíðarendabyggð og ný byggð í Skerjafirði geti hugsanlega lækkað notkunarstuðul vallarins.

Isavia fékk hollensku loft- og geimferðastofnunina til að gera úttekt á aðstæðum og í niðurstöðum hennar segir að aðstæður séu ásættanlegar en mælt sé með frekari athugun á vettvangi, sérstaklega á brautum 01 og 31.

Innviðaráðuneytið sendi Degi B. Eggertssyni borgarstjóra bréf 2. mars sl. þar sem beðið var um tryggingu fyrir því að framkvæmdir við flugvallarsvæðið hefðu ekki áhrif á þjónustugetu flugvallarins í innanlandsflugi. Óskað var eftir svari fyrir 25. mars, en þá var beðið um frest til 5. apríl og nú hefur ráðuneytið framlengt frestinn til 12. apríl. Þá vaknar sú spurning hvort verið sé að halda áfram með verkefnið án þess að sinna þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við framkvæmdina og kröfu innviðaráðherra um að framkvæmdir megi ekki skerða notagildi vallarins.

„Byggðin á Hlíðarenda hefur nú þegar áhrif á flugöryggi og ef þessi byggð rís verða áhrifin ennþá meiri. Í mínum huga er það alveg skýrt að það á að keyra málið í gegn og það er ásetningur borgarstjóra að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan þótt annar flugvöllur sé hvergi í augsýn í hans stað,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. 

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert