Andlát: Agnes Jóhannsdóttir

Agnes Jóhannsdóttir lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi fimmtudaginn 7. apríl sl., 95 ára að aldri.

Agnes fæddist í Keflavík 19. janúar 1927. Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Pétursdóttur og Jóhanns Gunnlaugs Guðjónssonar. Bræður hennar, Guðjón Ingiber, Pétur og Jón, eru allir látnir.

Æskuárin í Keflavík voru viðburðarík gleðiár en sorgum blandin, lituð af hinum skelfilega bruna í Skuld, en Agnes komst út úr húsinu ósködduð sjö ára gömul, og svo berklafaraldrinum sem hjó skörð í hóp jafnaldra hennar. Agnes tók virkan þátt í skátastarfi með Heiðarbúum þar sem hún fékk m.a. óbilandi áhuga á söng og leiklist.

Systkinin voru samrýnd og eftir að Agnes fluttist inn eftir til Reykjavíkur urðu heimsóknir hennar ásamt maka og börnum út eftir til Keflavíkur til foreldra hennar og bræðra og fjölskyldna þeirra tíðar.

Sömuleiðis voru bræður hennar og afkomendur þeirra alltaf velkomnir í Sigluvog 11 þar sem Agnes reisti sér framtíðarheimili ásamt eiginmanni sínum. Það var alltaf sterkur strengur sem tengdi hana við heimahagana og seinustu skýru minningarnar voru úr Duus-húsinu ævaforna frá bernskuárunum.

Agnes hlaut hefðbundna menntun í Barnaskóla Keflavíkur, en hleypti svo heimdraganum og var einn vetur í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði. Síðar stundaði hún nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og tók þátt í nokkrum leiksýningum, meðal annars í revíunni Bláu stjörnunni í Sjálfstæðishúsinu og söngleiknum Einu sinni var í Iðnó en eftirminnilegast var að hlaupa um stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu og hrópa að eldur væri í Kaupinhöfn í Íslandsklukkunni rétt eftir vígslu hússins árið 1950  Hún var stolt af að hafa orðið fyrir valinu sem Fjallkona í Keflavík á þessum árum til að flytja ljóð eftir Kristinn Reyr í tilefni af þjóðhátíðardeginum. Hún starfaði við ýmislegt sem til féll í Keflavík og í Reykjavík frá unga aldri, m.a. starfaði hún nokkur ár í kaupfélaginu í Keflavík og rak lítið útibú þess rétt rúmlega tvítug. Hún var seinna félagi í Kvenfélaginu Hringnum og Inner Wheel og átti auðvelt með að halda ræður, hvort sem var undirbúið eða beint frá brjóstinu.

Agnes var ávallt söngelsk og mikill náttúruunnandi. Hún naut þess að dveljast á jörð fjölskyldunnar á Álftanesi á Mýrum. Hún stundaði hestamennsku og ferðalög á hestum lengi vel auk þess sem hún naut þess að hafa tækifæri til að fara utan og ferðast um Evrópulönd og svo síðar að fara vestur um haf að heimsækja börn sín búsett þar. Þrátt fyrir stutta skólagöngu átti hún auðvelt með að tjá sig á Norðurlandamálunum og ensku og þótti gaman að tileinka sér nýjungar úr erlendum vikublöðum og allt til síðustu daga fylgdist hún vel með fréttum.

En ævistarfið varð húsmóðurstarfið sem hún lagði mikinn metnað í hvort sem var við daglega matseld eða veisluhöld, saumaskap á börnin eða við að láta sauma á sig samkvæmisklæðnað, og hún var strangur en kærleiksríkur uppalandi. Hún naut þess að fara á mannamót og það sópaði að henni hvar sem hún fór, lífsglöð og ávallt glæsilega búin.

Árið 1952 giftist hún Haraldi Sveinssyni forstjóra Timburverslunarinnar Völundar sem síðar varð framkvæmdastjóri Morgunblaðsins og stjórnarformaður Árvakurs um árabil. Haraldur lést 2019, 94 ára að aldri. Börn þeirra Agnesar eru Soffía, Ásdís, Jóhann og Sveinn. Barnabörnin eru fimm og langömmubörnin sex.

Agnes tengdist Morgunblaðinu alla tíð sterkum böndum. Á kveðjustund þakkar blaðið samfylgdina og vottar fjölskyldu hennar dýpstu samúð.

Agnes verður jarðsungin frá Langholtskirkju laugardaginn 23. apríl og hefst athöfnin klukkan 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert