Atvinnuleysi á landinu var 4,9% í mars og minnkaði úr 5,2% í febrúar. Vinnumálastofnun (VMST) spáir því að atvinnuleysi muni halda áfram að dragast sama í yfirstandandi mánuði og verða á bilinu 4,4 til 4,6%.
Að meðaltali fækkaði um 424 atvinnulausa í seinasta mánuði frá febrúar en í lok mars voru 9.608 einstaklingar skráðir atvinnulausir, 5.416 karlar og 4.192 konur.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu VMST um stöðuna á vinnumarkaði. Þar má einnig sjá að alls voru 4.097 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok mars og fækkaði þeim um 288 frá febrúar. „Mesta hlutfallslega fækkun atvinnulausra frá febrúar var í ferðatengdum atvinnugreinum eða um 11%. Í sérfræðiþjónustu fækkaði um 8,6%, í ýmissi þjónustustarfsemi 6,3% og í byggingariðnaði 5,9%,“ segir í skýrslunni. Bent er á að þessi fjöldi samsvarar um 10,5% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Fram kemur að hlutfall þeirra á atvinnuleysisskrá var tæp 43% í mars og hefur það hlutfall hækkað úr 40% frá seinasta sumri.
Atvinnuleysið hefur hvergi verið meira um langa hríð en á Suðurnesjum en þar hefur atvinnulausum á skrá þó fækkað á umliðnum mánuðum og mældist 8,6% atvinnuleysi á svæðinu í seinasta mánuði en þar var það 9,2% í febrúar. Næstmest var atvinnuleysið 5,1% á höfuðborgarsvæðinu.
„Atvinnuleysi minnkaði meira á landsbyggðinni sem heild en á höfuðborgarsvæðinu eða um 0,4 prósentustig og var 4,6% í mars. Á höfuðborgarsvæðinu minnkaði atvinnuleysi um 0,2 prósentustig og var 5,1% í mars. Atvinnuleysi á landinu öllu minnkaði um 0,3 prósentustig frá febrúar og var 4,9% í mars,“ segir í samantekt VMST.
Samtals voru 999 atvinnuleitendur á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok mars. Hefur þeim fækkað um 58 frá febrúarlokum en fækkað um 1.302 frá mars 2021 þegar fjöldi atvinnulausra á þessu aldursbili var 2.301.
Enn er stór sá hópur einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í langan tíma. Höfðu alls 3.260 einstaklingar verið án atvinnu í meira en tólf mánuði um seinustu mánaðamót. Þeim fækkaði um 179 frá því í febrúar og hefur fækkað mikið samanborið við ástandið fyrir ári en í lok mars á seinasta ári höfðu alls 6.207 einstaklingar verið án atvinnu í meira en eitt ár. Hefur því langtímaatvinnulausum fækkað umtalsvert eða um 2.947 milli ára.
„Þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6-12 mánuði fjölgaði lítilsháttar frá febrúar eða um 138 og voru 1.727 í lok mars en 1.589 í lok febrúar. Í mars 2021 var þessi fjöldi hins vegar 7.440,“ segir í skýrslu VMST. omfr@mbl.is