Eldur í flokkunarskýli í Helguvík

Frá brunanum í Helguvík.
Frá brunanum í Helguvík. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Allt tiltækt lið brunavarna Suðurnesja var kallað út um hálftólfleytið vegna elds í flokkunarskýli Íslenska gámafélagsins.

Skýlið er í Helguvík, við hliðina á sorpeyðingarstöð Kölku.

Að sögn varðstjóra hjá brunavörnum er verið að reyna að ráða niðurlögum eldsins. Hann segir eldinn mikinn enda mikið af drasli á svæðinu.

Engin hætta er á ferð, en skýlið er í góðri fjarlægð frá Kölku.

Uppfært kl. 13.05:

Fram kemur í færslu lögreglunnar á Suðurnesjum að um stórbruna sé að ræða og að mikinn reyk leggi í átt að Garði.

„Biðjum íbúa þar að loka gluggum hjá sér. Jafnframt biðjum við fólk að vera skjólmegin við reykinn þar sem hann er afar eitraður,“ segir í færslunni.

Uppfært kl. 13.24:

Að sögn varðstjóra hjá brunavörnum Suðurnesja er búið að slá mikið á eldinn og hafa slökkviliðsmenn náð utan um verkefnið. Engu að síður þarf að róta til í ruslahaugnum sem þarna er, slökkva eld og róta svo aftur í honum.

Engin hættuleg efni eru að brenna en íbúar í nágrenninu eru engu að síður hvattir til að loka gluggum. „Það vill enginn fá þetta inn til sína,“ segir hann.

Eldsupptök eru ókunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert