Samþykkt var á aðalfundi Eflingar í gærkvöldi að fresta atkvæðagreiðslu um lagabreytingar til sunnudags. Fundurinn mun því halda áfram sem frá var horfið á morgun.
Í facebookfærslu sinni segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem tók við formennsku í stéttarfélaginu í gærkvöldi, að þess hafi verið krafist að atkvæðagreiðsla um breytingatillögur færi ekki fram með handauppréttingum, eins og venjan er, heldur yrði leynileg.
Sólveig Anna segist jafnframt vera undrandi á því að henni hafi ekki verið óskað til hamingju á fundinum og að ekki hafi verið gert ráð fyrir ræðu af hennar hálfu.
Í færslunni minnist hún á þegar hún tók við formennsku árið 2018. Þá óskaði fráfarandi formaður henni til hamingju, hún hélt ræðu og fékk blómvönd.
„En í gær brá svo við að ekkert af þessu gerðist: Mér var ekki óskað til hamingju af fráfarandi formanni og á dagskrá fundarins var ekki gert ráð fyrir því að nýr formaður flytti ávarp,“ skrifar Sólveig Anna.
„Þess í stað lagði fólk mikið á sig og seildist langt (æ lengra eftir því sem leið á fundinn) til þess að láta lagabreytingatillögur þær sem ég og félagar mínir höfðum skilað til félagsins á réttum tíma samkvæmt lögum, kynnt á félagsfundi og gert aftur grein fyrir á fundinum í gær eins og lög félagsins gera ráð fyrir, hljóma sem ekkert annað en auvirðilega tilraun mína til að gerast “einráð” í félaginu, sökum míns illa innrætis og augljósu annarlegu hvata. Þetta er auðvitað fjarri lagi og hverri þeirri manneskju sem ekki hefur tapað hæfileikanum til gagnrýninnar hugsunar hefði átt að vera það ljóst,“ bætir hún við.
Í lok færslunnar segist Sólveig Anna ætla að birta á Facebook síðar í dag ávarpið sem hún hafði skrifað og ætlaði að flytja á fundinum.