Kunningi hafi grætt milljónir eftir ábendingu

Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir vel stæðan kunningja sinn hafa grætt milljónir eftir að hafa fengið símhringingu frá starfsmanni hjá einum af söluaðilum bréfanna í Íslandsbanka, sem benti honum á að taka þátt í útboðinu sem fór fram 22. mars síðastliðinn. Starfsmaðurinn á að hafa verið vinur kunningja Páls en þeir hafa hvorugir verið nafngreindir.

„Þetta þótti kunningja mínum stórsniðugt og keypti um milljón hluti á 117 krónur - 5 króna afsláttur frá síðasta skráða markaðsgengi sem var 122. Við fyrsta hanagal morguninn eftir seldi svo kunningi minn bréfin á genginu 127.

Loforð vinar hans frá því kvöldið áður stóðst nánast upp á krónu: Kunningi minn græddi um 10 milljónir á þessum tveimur símtölum; tæplega 1,5 milljónir á klukkutíma á meðan hann svaf,“ segir í færslu sem Páll birti á Facebook.

Páll segir að um svipað leyti og tilboði kunningja hans um að kaupa hluti á 117 krónur, hafi tilboði frá stórum lífeyrissjóði verið hafnað, sem vildi kaupa fyrir meira en 10 milljarða króna á genginu 122 krónur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert