„Það er ekki hægt að skálda þessa vitleysu“

Mótmælin voru haldin á Austurvelli í dag.
Mótmælin voru haldin á Austurvelli í dag. mbl.is/Óttar

„Fólk er búið að fá alveg upp í kok af þessari spillingu. Að það séu sömu persónur og leikendur sem skófu að innan bankakerfið hérna áður, skuli fá svo sama banka, sem búið er að koma á lappirnar aftur, á útsöluverði. Sérvalinn hópur. Það er ekki hægt að skálda þessa vitleysu,“ segir Hall­fríður Þór­ar­ins­dótt­ir, ein af skipuleggjendum mótmæla vegna söl­unn­ar á hlut rík­is­ins í Íslands­banka, sem fóru fram á Austurvelli í dag. 

Hallfríður segir að mótmælin hafi gengið mjög vel og að skipuleggjendur hafi verið ánægðir hvernig til tókst en hugmyndin spratt einungis fyrir þremur dögum. 

„Það mættu fleiri hundruð manns og vel tekið í ræður ræðumanna. Það var virkilega mikið púður í því sem þau voru að segja,“ segir hún.

Þor­vald­ur Gylfa­son hag­fræðipró­fess­or, Ásta Lóa Þórs­dótt­ir, þingmaður Flokks fólks­ins og formaður Hags­muna­sam­taka heim­il­anna, Gunn­ar Smári Eg­ils­son, formaður Sósí­al­ista­flokks Íslands, og Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, stigu á stokk.

Gunn­ar Smári Eg­ils­son, formaður Sósí­al­ista­flokks Íslands, hélt ræðu.
Gunn­ar Smári Eg­ils­son, formaður Sósí­al­ista­flokks Íslands, hélt ræðu. mbl.is/Óttar

Fullkomlega misboðið

Hallfríður segir að fólki sé fullkomlega misboðið hvernig staðið var að útboðinu.

„Það hefur nákvæmlega ekkert breyst á 14 árum. Það er sama spillingin, sama ógeðið, sömu persónur, sömu leikendur. Það er alveg ótrúlegt að fólkið sem skóf innan úr bankakerfinu, rændi lífeyrissjóðina, gerði fólk heimilislaust fyrir sakir ótrúlegs glæfraskapar. Þetta var allt gert með stuðningi stjórnvalda, annars hefði þetta ekki verið hægt. Þetta er að gerast aftur.“

Tóm­as A. Tóm­as­son, þingmaður Flokks fólks­ins, var á meðal mótmælenda.
Tóm­as A. Tóm­as­son, þingmaður Flokks fólks­ins, var á meðal mótmælenda. mbl.is/Óttar

Mikilvægt að ná skriðþunganum

Hallfríður segir að ekki séu fleiri mótmæli á dagskrá þessa stundina.

„Þetta var spontant svar við því sem er að gerast. Okkur finnst mikilvægt að ná þessum skriðþunga sem myndast því síðan verður þetta örugglega þrætt fram og til baka. Það er okkar borgarlegi réttur að geta andmælt stjórnarháttum sem við getum ekki sætt okkur við. Við búum í lýðræðissamfélagi og ef fólk er ekki ánægt þá á það að láta óánægju sína í ljós.“

mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert