Þið eruð í samskiptum við óvininn

Lyubomyra Petruk vill að íslensk stjórnvöld taki afgerandi afstöðu gegn …
Lyubomyra Petruk vill að íslensk stjórnvöld taki afgerandi afstöðu gegn Rússum. mbl.is/Ásdís

Lyubomyra hittir blaðamann í anddyri Hótel Sögu þar sem við hittum úkraínskt flóttafólk, konur og börn. Eftir að hafa rætt við nokkra með hjálp Lyubomyru sem túlkaði er kominn tími til að heyra í henni sjálfri. Hún hefur sterkar skoðanir á hvað megi betur fara, bæði hvað varðar pólitíkina og hjálparstarfið.

Gott land fyrir börn

 „Ég kom hingað árið 2004 en hafði þá verið í Bretlandi í fimm ár að læra ensku. Þegar ég fór frá Úkraínu árið 1999 var efnahagslífið þar slæmt; ég hafði unnið sem enskukennari en launin mín voru greidd reglulega með miklum töfum. Ég fór því til Bretlands. En á leiðinni heim vildum við fjölskyldan koma við einhvers staðar og ákváðum að koma hingað því við erum ævintýragjarnt fólk og vissum að Ísland væri einstakt land. Við vissum mjög lítið um landið; bara að Reykjavík væri höfuðborgin. Ég hafði séð auglýsingu frá Iceland Express á strætisvagni í London og ákvað að kaupa miða hingað. Þannig að ég kom hingað sem ferðamaður en komst svo að því að ég gæti lært íslensku í háskólanum og ákvað að vera lengur. Mér líkaði vel að geta lært hér, unnið og kynnst landinu,“ segir hún en hingað komu þau með tvö börn en þrjú til viðbótar hafa bæst í hópinn.  

„Ísland er gott land fyrir börn.“

Í dag starfa bæði hjónin sem bílstjórar hjá Reykjavík Sightseeing og Hópbílum, en Lyubomyra lauk leiðsögumannanámi í Menntaskólanum í Kópavogi og starfar nú einnig sem leiðsögumaður.

Ég er með sektarkennd

Lyubomyra á ættingja í Úkraínu, meðal annars einn bróður sem er læknir, en hann býr nálægt landamærunum við Hvíta-Rússland.

„Við höfum alltaf verið í góðu sambandi og erum það líka núna en það er samt eitthvað svo tilgangslaust að biðja hann að yfirgefa landið. Hann segir það ekki koma til mála; hann ætli að berjast fyrir Úkraínu. Hann spyr mig hvort ég sjái ekki fréttirnar en ég svara: „Jú, en ég er að tala við þig, bróður minn.“ Þannig að ég get bara beðið hann um að skrifa mér að minnsta kosti einu sinni á dag að láta mig vita að hann sé á lífi,“ segir hún.  

„Ég er með sektarkennd að spyrja fólk þarna: „Hvernig hafið þið það?“ Hverju á það að svara? Auðvitað er það ekki óhult og því finnst mér þetta svo heimskuleg spurning. Þannig að í staðinn fyrir að spyrja að þessu segi ég bara: „Við erum einum degi nær sigri.“ Fólk spyr mig hvort ég sé viss og ég segist auðvitað vera viss um það, við erum einum degi nær sigri,“ segir hún. Eiginmaður Lyubomyru, Mykhaylo Melnyk, sem situr hjá okkur í viðtalinu, tekur undir að sektarkenndin sé mikil og skýtur inn í: „Fólk er að spyrja mig: „Af hverju þurfa synir mínir að deyja í Úkraínu en þínir fá að vera á Íslandi? Af hverju er minn sonur að berjast en ekki þinn?“ Við spyrjum okkur líka að þessu,“ segir hann, en elstu synir hjónanna eru átján og tuttugu ára.  

„Ef við byggjum í Úkraínu væru þeir núna að berjast. Ég spurði þá einhvern tímann fyrir nokkrum árum hvort þeir myndu vilja berjast ef til þess kæmi og þeir svöruðu því játandi,“ segir Lyubomyra.

Södd, klædd og dauð

Í stríðinu getur oft hver mínúta skipt sköpum og skilið milli lífs og dauða. Lyubomyra segir nú vanta sérstök sárabindi, svokallaða snarvöndla, sem stöðva blæðingu á skjótan máta.

„Ég er að vinna í því að senda slíka snarvöndla til Úkraínu en það eru ýmis ljón á veginum. Flutningskostnaður er mikill og auk þess er ég spurð hvers vegna ég vilji kaupa þetta, því sagt er að NATO sjái um að útvega þessi snarvöndla, en það er ekki alveg satt. NATO skaffar ýmislegt en það er ekki alltaf hægt að bregðast fljótt við staðbundnum þörfum og það er ekki skilningur á því hér,“ segir hún.

„Hér hef ég fengið þau svör að ekki sé leyfi til að selja slík hjálpargögn frá NATO-herstöðvum og að þau hafi ekki áður fengið svona beiðnir. Ég hef sagt að við gætum keypt þetta og látið senda út, en mér er sagt að ekki sé vitað hvernig ætti að senda þetta út,“ segir hún og segir að nóg sé sent út af mat og fötum en það dugi skammt ef fólk lætur lífið vegna þess að ekki sé nógu fljótt brugðist við sárum, sem eru oft víða um líkama fólks eftir sprengjuregn.

„Vill fólk sjá okkur södd, klædd og dauð?“ segir hún svekkt. Hún hefur ekki gefist upp en nú í vikunni fann hún leið til að kaupa snarvöndla af íslenska fyrirtækinu Hiss ehf. Hún hyggst nú standa fyrir söfnun og getur fólk lagt inn á 0189-26-004211, kennitala 421112-0100 sem er reikingur Félags Úkraínumanna á Íslandi.  

Afstaða gegn Rússum

„Við í Úkraínu erum Evrópubúar. Við erum kannski fátækari en aðrir en það var allt á réttri leið. Rússland hefur alltaf viljað vera stóri bróðir okkar og þetta snýst ekkert um hvort við hötum Rússa eða ekki, við viljum bara að þeir láti okkur í friði. Það er ekki bara við Pútín að sakast þótt hann stjórni; hver er að skjóta, hver er að nauðga, hver er að rupla og ræna? Það er verið að ræna af líkum á götum úti. Þetta er fasismi,“ segir hún og segist ekki sátt við að rússneski sendiherrann hér á landi fái að tjá sig í fjölmiðlum.

„Mér finnst ég svo hjálparlaus og skil ekki af hverju þessi maður fær pláss til að tjá sig. Hann er beinn fulltrúi Pútíns,“ segir Lyubomyra og segir að Íslendingar ættu nú að taka á honum stóra sínum og hætta öllum samskiptum við Rússa, það væri mesti sýnilegi stuðningur við Úkraínu.

„Íslendingar stæra sig af því að vera lítið land en samt sterk þjóð. Þeir voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Litháens. Þeir tóku vel á móti Fischer. Af hverju vilja þeir núna ekki vera þjóðin til að taka afgerandi afstöðu gegn Rússum? Það er kannski slæmt fyrir viðskipti og pólitíkina. En við erum að tala um að standa vörð um mannréttindi. Ég vil að óvinurinn minn verði veikari,“ segir hún.

„Þið eruð í samskiptum við óvininn og með því eruð þið að styðja stríðið. En enginn vill heyra þetta. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum og upplifi mig hjálparvana.“

Ítarlegt viðtal er við Lyubomyru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert