Þúsundir Íslendinga og erlendra ferðamanna stunda útivist á Tröllaskaga og er fjallaskíðamennska vinsæl. Fjögur fyrirtæki eru með þyrlur í sinni þjónustu til að flytja gesti upp í fjöllin en meirihlutinn er þar þó á eigin vegum eða í minni hópum með leiðsögn. Fjögur skíðaslys hafa orðið á Tröllaskaga frá því um miðjan mars og hefur einn erlendur ferðamaður látist.
Alloft hafa fallið snjóflóð á vinsælum skíðastöðum, bæði af völdum fjallaskíðafólks og af náttúrulegum ástæðum. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að snjór er víða óstöðugur eftir umhleypinga í mars en snjóað hefur ofan á hjarnið á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Fjölmörg nokkuð stór flekaflóð féllu í norðan hraglanda í Skíðadal um og eftir síðustu helgi en minni flóð hafa fallið undan skíðamönnum í Hjaltadal, Þorvaldsdal og í Skeiðsfjalli í Svarfaðardal í þessari viku.
Þrír bandarískir fjallaskíðamenn á fertugsaldri urðu fyrir síðastnefna flóðinu. Einn lést og hinir tveir eru alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi. Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gærmorgun kom fram að allir eru þeir vanir fjallamenn og vel búnir.
Magni Hreinn Jónsson, hópstjóri ofanflóða hjá Veðurstofunni, segir að ekki hafi orðið vart við að breytingar í náttúrunni orsaki tíðari snjóflóð. Snjóalög séu mjög breytileg á milli mánaða á Íslandi. Hann telur að fjölgun snjóflóða á Tröllaskaga tengist breyttri ferðahegðun og útivist. Þegar fólk er mikið á ferð í brattlendi fylgi því að snjóflóð falla.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.