Vill að forstjóri og stjórn Bankasýslu víki

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, segir að trúverðugleiki Bankasýslu ríkisins hafi beðið hnekki vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Hann segir í pistli á Vísi að fara þurfi ofan í saumana á því hvernig stofnunin hafi haldið á sölunni og að gagnsæi og upplýsingagjöf hafi verið ábótavant.

„Trúverðugleiki Bankasýslu ríkisins hefur beðið hnekki og það myndi auðvelda stofnunni að endurheimta traust ef forstjóri og stjórn hennar myndu víkja. Ekki ætti að koma til álita að selja frekari hluti í Íslandsbanka fyrr en öll kurl eru komin til grafar um framkvæmdina, og hagsmunir almennings tryggðir ásamt þeirri umgjörð viðskiptasiðferðis sem ber að viðhafa við sölu ríkiseigna,“ skrifar Bjarni.

Orri Páll Jóhannsson .
Orri Páll Jóhannsson . Ljósmynd/Orri Páll

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1 að svo virðist sem Bankasýslan hafi klúðrað málinu og skortur hafi verið á gagnsæi.

„Hins vegar held ég að sé algjörlega ljóst að traustið er farið og í því þarf að vinna,“ sagði Orri Páll og vill að Ríkisendurskoðun velti við hverjum steini í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert