Vinna fram á nótt við að slökkva glæður

Frá brunanum í Helguvík fyrr í dag. Svarti reykmökkurinn er …
Frá brunanum í Helguvík fyrr í dag. Svarti reykmökkurinn er ekki lengur sjáanlegur en búið er að slökkva mesta bálið. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Vel hefur tekist að ná utan um eldinn sem kviknaði í Helguvík fyrr í dag. Starfsmenn slökkviliðsins eru nú að safna kröftum en nokkur vinna er framundan við að slökkva glæður sem enn eru á lífi.

Gæti sú vinna staðið yfir fram á nótt en mikilvægt er að fylgjast með framhaldinu svo eldurinn taki sig ekki upp aftur. Þetta segir Ásgeir Þórisson varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja.

Eldur kviknaði í flokkunarskýli í Helguvík fyrr í dag og ekki leið á löngu þar til brunninn barst yfir í ruslahaug sem var staðsettur í grennd við það. Er skýlið nú fallið.

„Það brann allt sem brunnið gat,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Grafa, róta og slökkva

Búið er að slökkva stóra bálið en litlir eldar eru enn í stæðunni sem slökkviliðið þarf að komast að.

„Það er bara verið að grafa og róta og slökkva,“ segir Ásgeir um þá vinnu sem er framundan.

„Ef við erum ekki á tánum og með vakt á þessu þá gæti bara rokið upp eldur aftur, það er það sem við erum líka að passa,“ bætir hann við.

Reykurinn ekki hættulegur en óhollur

Svartur reykmökkur lagði af brunanum í dag í átt að Garði. Fram kom í færslu frá lögreglunni á Suðurnesjum að engin hættuleg efni væru að brenna en íbúar í nágrenni voru þó hvattir til að loka gluggum, enda mikill fnykur sem fylgir slíkum bruna.

Að sögn Ásgeirs er svarti reykmökkurinn ekki lengur sjáanlegur. Hann segir reykinn ekki vera hættulegan þeim sem eru staddir í einhverri fjarlægð frá brunanum. Reykur sé þó aldrei hollur fyrir mannfólkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert