„Augljós einkenni spillingar“

Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka hefur vakið hörð …
Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka hefur vakið hörð viðbrögð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sala fjármálaráðherra á hlut ríkisins í Íslandsbanka er skólabókardæmi um spillingu, aðstöðubrask, vanhæfni og óheilbrigða menningu ábyrgðarleysis undir forystu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ segir í tilkynningu Íslandsdeildar Transparency International. 

Gagnrýnisraddir hafa verið áberandi síðustu daga vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, þar sem ýmist hefur verið talað um klúður, spillingu eða lögbrot um aðgerðina.

„Flest bendir nú til þess að hvorki salan sem fram fór í síðasta mánuði né hið almenna útboð í maí á síðasta ári standast réttmætar kröfur um fagleg vinnubrögð, hámörkun verðs eða störf í lýðræðislegu umboði. Salan er enn síður í samræmi við yfirlýst markmið og pólitísk loforð. Enn hrannast upp vísbendingar um spillta meðferð málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Fjármálaráðherra skorti trúverðugleika

Þau telja að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekki trúverðugleika til að annast sölu banka í eigu almennings og að hann greini ekki nægilega vel á milli almannahagsmuna og sérhagsmuna.

Deildin telur óeðlilegt að fjármálaráðherra láti rannsaka bankasöluna, heldur ætti alþingi að gera rannsókn á sínum vegum.

Í tilkynningunni segir að þau líti á þetta sem: „prófstein á heilbrigða þrígreiningu ríkisvaldsins að „aðalleikarinn“ í söluferlinu, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, komi hvergi nálægt framvindu málsins úr þessu.“

Íslandsdeild Transparency International ítrekar mikilvægi gagnsæis og segir: „Fall íslensku bankanna árið 2008 var þriðja stærsta gjaldþrot heimssögunnar. Það er ófyrirgefanlegt að ríkisstjórnin hafi hafið einkavæðingu ríkisbanka á ný og lært jafn lítið af mistökum fortíðarinnar og raun ber vitni, en kenni nú Bankasýslunni um ófarirnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert