Hvetur Sigurð Inga til að láta verkin tala

Claudia Wilson í Silfrinu.
Claudia Wilson í Silfrinu. Mynd/Skjáskot af vef RÚV

Claudia Wilson lögfræðingur segir að ekki sé nóg að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafi beðið Vigdísi Häsler Sveinsdóttur, formann Bændasamtaka Íslands, afsökunar á ummælum sínum í hennar garð. Hann þurfi að ganga lengra og ná til íslenskra kvenna af erlendum uppruna.

„Hann getur farið lengra og látið verkin tala og náð til þessara hópa,“ sagði hún í Silfrinu og bætti við að hann ætti að kalla eftir og styðja við aðgerðir innan ríkisstjórnarinnar um að jafna stöðu innflytjenda á Íslandi.

Hún sagðist ekki gera ráð fyrir því að málið hafi frekari pólitískar afleiðingar fyrir Sigurð Inga, enda ekki vaninn hérlendis að gjörðir ráðherra hafi afleiðingar.

„Ég ítreka að ráðherra er í kjöraðstæðu til að láta verkin tala.“

Hún sagði vonbrigði að heyra einn af ráðherrum landsins og formann stjórnmálaflokks láta ummælin falla og að ekki sé hægt að segja annað en orðræðan hafi verið fordómafull.

„Að mínu mati tjáir sig enginn með þessum hætti nema þessi hugsun sé hluti af þínum þankagangi,“ sagði hún en kvaðst vona að hún hafi þar rangt fyrir sér.

Claudia sagðist dást að hugrekki Vigdísar um að stíga fram en að einnig þurfi að hugsa til þeirra sem ekki hafi sömu rödd og hún í samfélaginu.

Nefndi hún jafnframt að rannsóknir hafi sýnt að fordómar séu í íslensku samfélagi.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert

Ummælin muni alltaf fylgja honum

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf. og fyrrverandi félagsmálaráðherra, sagði ummæli Sigurðar Inga dæma sig sjálf og að þau muni alltaf fylgja honum. Þau væru stórfurðuleg hjá jafn þaulvönum stjórnmálamanni. Einnig sagði hann viðbrögð ráðherrans eftir að málið kom upp hafa verið klúðursleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert