„Þetta eru jú mamma mín og pabbi“

Diana Mikuliak og Tatiana Reptiy eru hér með börnum sínum, …
Diana Mikuliak og Tatiana Reptiy eru hér með börnum sínum, Nikita og Elisabeth. mbl.is/Ásdís

Tatiana kom til Íslands 21. mars og Diana þann átjanda, en þær eru báðar með tvö börn með sér og eru yngri börn þeirra orðnir vinir.

„Við komum hingað af því hér er mikið öryggi, landið er hreint og hér er gott að vera með börn. Hér virka lög landsins og því var þetta besta landið til að velja svo börnin okkar fái að dafna,“ segir Tatiana.

„Ég kom með tvö börn, það eldra fimmtán ára sonur sem er mjög góður í tölvum en hann segir að Ísland sé gott land til að læra meira á tölvur,“ segir Diana.

„Sonur minn er nýorðinn fjórtán ára og hann er Úkraínumeistari í blönduðum bardagalistum en þann 20. febrúar fórum við til Kænugarðs þar sem hann keppti til sigurs. Hann er nú þegar farinn að æfa hjá klúbbnum Tý og þjálfarinn hér segir að hann sé mjög góður. Mjölnir bauð honum líka að koma í sinn klúbb en hann valdi Tý því þeir urðu fyrri til,“ segir Tatiana.

Eiginmaður Tatiönu og faðir barnanna er eins og fleiri karlmenn í Úkraínu.

„Hann er ekki í hernum en bíður átekta eftir kallinu,“ segir hún.

Eiginmaður Diönu er í hernum að berjast. Þær segjast heyra í eiginmönum sínum nánast daglega.

„Við fylgjumst vel með fréttum alla daga og höfum líka okkar eigin spjallhópa þar sem við tölum saman. Þá getum við séð hvað er raunverulega að gerast í heimalandinu. Auk þess fáum við alltaf skilaboð þegar almannavarnasírenur fara í gang,“ segir Tatiana.

Skipulögðum matarbox

Tatiana segir því fylgja mikil streita að þurfa að yfirgefa stríðshrjáð heimaland sitt.

„Í Úkraínu áttum við gott líf, vorum í vinnu og höfðum allt til alls. En við óttuðumst um börnin okkar. Dóttir mín var orðin hrædd við að heyra í hraðsuðukatlinum í eldhúsinu því hún var svo hrædd við sprengjur,“ segir hún.

„Mín borg var aðeins friðsælli en hennar en börnin þurftu að vera ein heima því ég þurfti að fara til vinnu og það var ekki öruggt fyrir þau. Við sinntum sjálfboðaliðastörfum og vorum að hjálpa þeim sem voru að berjast í Bútsja,“ segir Tatiana en hún var framkvæmdastjóri á stórum veitingastað. Hún segir að eftir að stríðið braust út hafi veitingastaðnum verið lokað og hann notaður til að búa til mat fyrir hermenn.

„Við sameinuðust öðrum veitingastöðum og allir unnu í sjálfboðavinnu. Við skipulögðum matarbox fyrir hermennina,“ segir hún.

Börnin skipta mestu máli

Diana tekur í sama streng og segist hafa viljað koma börnum sínum í öruggt skjól.

„Það tók langan tíma fyrir mig að ákveða að fara en við höfðum líka breytt vinnunni minni eftir að stríðið braust út. Ég vann áður við að sauma brúðarkjóla en svo fórum við að sauma fyrir hermenn,“ segir Diana.

„Í Úkraínu gerðum við það sem við gátum til að hjálpa fólki en nú reyni ég að hugsa um hag barna minna hér,“ segir Tatiana.

„Börnin skipta mestu máli. Við verðum hér eins lengi og við þurfum. Vonandi verða krakkarnir ánægð hér í skóla,“ segir Diana og segist ekki vita hvort hún snúi tilbaka eftir stríðið.

Flúðum oft í kjallara

Hin sautján ára Anna Stefak kom hingað ásamt tveimur frændsystkinum, ömmu og móðursystur.

Anna kom hingað frá Úkraínu með flugi í gegnum Pólland. Hún hafði verið hér í fjóra daga þegar viðtalið var tekið en fjölskyldumeðlimir búa nú í þremur herbergjum á Hótel Sögu.

„Við þurftum oft að flýja á nóttunni í kjallara. Ég hélt að ég væri óhult í heimabæ mínum Lviv en þar var síðar látið sprengjum rigna,“ segir Anna og segir suma vini sína ekki hafa getað flúið.

Anna er hér með ömmu sinni en foreldrar hennar urðu …
Anna er hér með ömmu sinni en foreldrar hennar urðu eftir í Úkraínu. mbl.is/Ásdís

„Karlmenn yfir átján ára mega ekki yfirgefa landið og aðrir hafa ekki efni á því,“ segir hún og segist þekkja marga sem urðu eftir til að berjast.

Anna er nú á flótta og líf hennar hefur snúist á hvolf.

„Heima í Úkraínu var ég mjög upptekin í skólanum og fór stundum í göngutúra með vinum mínum. Mér finnst gaman að teikna og lesa.“

Í sjokki yfir verðlaginu

Báðir foreldrar Önnu eru enn í Úkraínu.

„Faðir minn er lögregluþjónn og hann verður að vera í Úkraínu,“ segir hún og segir mikla þörf á lögreglu núna í stríðinu.

„Það er mikið hringt í lögreglu því Rússar eru að ræna og rupla en pabbi má auðvitað ekki segja mér allt,“ segir hún.

„Mamma varð líka eftir í Úkraínu því hún vildi ekki yfirgefa pabba. Það er erfitt en ég hringi í þau þegar ég get. Ég sakna þeirra og langar að hitta þau sem fyrst og þau segja það sama. Ég held þau séu ekki örugg af því Rússarnir eru í Úkraínu. Ég er einkabarn og foreldrar mínir voru hræddir um mig og vildu að ég færi,“ segir Anna og segist hafa miklar áhyggjur af þeim.

„Þetta eru jú mamma mín og pabbi.“

„Eftir komuna hingað þurftum við að ganga frá pappírum og síðan er ég búin að fara að sjá Geysi. Fyrstu dagana fór ég og ættingjar mínir að kaupa í matinn og við vorum alveg í sjokki yfir verðlaginu,“ segir hún og segir mikinn mun á verðlagi hér og í Úkraínu.

Anna er ánægð að þurfa ekki að búa við hörmungar stríðsins.

„Ég er glöð að ég er hér í örygginu en ég sakna heimalandsins og mig langar aftur heim eins fljótt og mögulegt er.

Ítarlegri viðtöl eru við flóttafólkið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert