Andlát: Davíð Scheving Thorsteinsson

Morgunblaðið/Þorkell

Davíð Scheving Thorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, lést síðastliðinn föstudag 92 ára að aldri. Davíð fæddist 4. janúar 1930, sonur hjónanna Magnúsar Scheving Thorsteinsson (1893-1974) og Lauru Scheving Thorsteinsson, f. Havstein (1903-1955).

Davíð lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949 og prófi í heimspekilegum forspjallsvísindum frá HÍ ári síðar. Hann var um árabil atkvæðamikill í atvinnulífinu. Hann var framkvæmdastjóri hjá Smjörlíki hf. og Sól hf. á árunum 1964 til 1995 og gegndi á sama tíma og síðar fjölda ábyrgðarstarfa í atvinnulífi og fyrir hið opinbera, auk þess að starfa að góðgerðarmálum.

Davíð var formaður nefndar sem samdi reglur um starfshætti hlutafélaga á Íslandi, og þær reglur eru núna orðnar reglur Kauphallar Íslands. Hann sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1968-1974, og var formaður 1974-1982, í framkvæmdastjórn samtaka atvinnulífsins og varaformaður 1978-1990, formaður bankaráðs Iðnaðarbankans 1982-1989, varamaður í bankaráði Landsbanka Íslands 1972-1980, varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands 1980-1993 og aðalmaður í stjórn bankans 1993-1998.

Davíð lét sig þjóðfélagsmál varða og átti meðal annars sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Árið 2009 fékk hann frelsisverðlaun SUS og í rökstuðningi með þeim sagði að hann hefði „allan starfsferil sinn farið ótroðnar slóðir í íslensku viðskiptalífi. Á tímum viðskiptahafta og skömmtunar lagði Davíð til atlögu við hið opinbera í því skyni að geta boðið Íslendingum upp á meira úrval og fjölbreytni. Þannig hefur athafnasemi hans og útsjónarsemi í viðskiptum verið meðborgurum hans til hagsbóta.“

Davíð var formaður Rauða kross Íslands um árabil og sat í stjórn minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur 1984-2006. Davíð var formaður ráðgjafarnefndar Íslands hjá EFTA, ræðismaður Írlands og síðar aðalræðismaður 1977-2018 og formaður Ræðismannafélags Íslands 2007-2018. Davíð var sæmdur fálkaorðunni árið 1982.

Fyrri kona Davíðs var Soffía Mathiesen (1930-1964), húsmóðir og kennari, og eignuðust þau börnin Lauru (1954), Hrund (1957) og Jón (1963).

Seinni kona Davíðs er Stefanía Svala Borg (1940), húsmóðir og læknaritari. Börn Davíðs og Stefaníu eru Magnús (1968), Guðrún (1971) og Stefanía (1986).

Útförin fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík 25. apríl nk. kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert