„Eitthvað töff sem er líka praktískt“

Malarhjólreiðar hafa notið sívaxandi vinsælda, ekki síst í Bandaríkjunum, en …
Malarhjólreiðar hafa notið sívaxandi vinsælda, ekki síst í Bandaríkjunum, en hér á landi og í Evrópu er þessi grein hjólreiða einnig í talsverðum vexti. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Fyrir rúmlega áratug síðan var íslenskt fyrirtæki stofnað utan um nýja hugmynd fyrir dempun á reiðhjólum og stuttu síðar kom frumraunin á markað og skar sig strax mikið úr öðrum demparalausnum sem voru á markaðinum. Fyrir fimm árum kom svo fyrsta fjöldaframleidda íslenska hjólið á markað sem byggði á þessum grunni og í dag er komið að næstu kynslóð, en það verður í raun þriðja hjólið sem fyrirtækið Lauf setur á markað og fékk nýja hjólið nafnið Seigla.

Fyrirtækið seldi í fyrra tæplega tvö þúsund hjól og velti um milljarði, en áformar að margfalda söluna á næstu árum og ná veltunni yfir 10 milljarða. mbl.is ræddi við Benedikt Skúlason, einn stofnanda og framkvæmdastjóra félagsins, um nýja hjólið, vaxandi markað malarhjólreiða og framtíðaráform fyrirtækisins.

Fyrsta hjólið fyrir fimm árum

Þegar upphaflegi demparagaffallinn kom á markað vakti hann talsverða athygli, en hann byggir á einkaleyfi í kjölfar hugmyndar Benedikts að notast við glertrefjafjaðrir í stað teleskópískra dempara á framgaffal. Hugmyndin var bæði að með þessu væri hægt að gera léttari dempara, en einnig að þeir gætu verið svo gott sem viðhaldsfríir.

Eftir að hafa selt gafflana sér í nokkur ár, án þess að þessi útfærsla færi mikið á flug utan hörðustu áhugamanna, var ákveðið að framleiða eigið hjól sem fékk nafnið True grit og kom fyrst í verslanir árið 2017. Fyrsta árið seldust um 500 slík hjól, en meðalverð hjólanna, sem koma í nokkrum mismunandi útfærslum með gírbúnað að gjarðir, var þá um 5.000 Bandaríkjadalir og var veltan strax orðin nokkur hundruð milljónir.

Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf, við True grit-hjólið. Sjá má muninn …
Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf, við True grit-hjólið. Sjá má muninn á því og nýrri útgáfu Seiglu, meðal annars hvar sætisstagið tengist við sætistúbuna, en á Seiglu er tengipunkturinn mun neðar á stellinu. mbl.is/​Hari

Hátt í tvö þúsund hjól í fyrra og 900 milljóna velta

Í fyrra fór salan langleiðina í tvö þúsund hjól og segir Benedikt að velta fyrirtækisins hafi verið um 900 milljónir, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi lent í einhverjum afhendingabrestum síðasta sumar vegna áhrifa af faraldrinum á aðfangakeðjur.

Benedikt segir True grit hjólið strax hafa fengið góðar móttökur, en á þeim tíma var það kynnt sem malarhjól sem væri búið þægindum í formi demparagaffalsins, en slík dempun var undantekning frekar en venja á malarhjólum. Þrátt fyrir þægindin væri það einnig keppnishjól, enda koltrefjahjól og létt eftir því og segir Benedikt að þegar um langar og erfiðar malarhjólakeppnir sé að ræða skipti samblanda af þessum tveimur þáttum miklu máli upp á úthald og getu hjólarana.

Eins og sjá má á myndinni er tengipunktur sætisstagsins (e. …
Eins og sjá má á myndinni er tengipunktur sætisstagsins (e. seatstay) nokkuð neðar en á hefðbundnum hjólum. Þar með verður til dempun og sætistúbuna þegar álag kemur á afturhjólið. Samhliða þessu veldur álagið einnig því að hnakkpípan og þar með hnakkurinn færist aðeins aftur og dregur þar með enn frekar úr höggi. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Malarhjólin komin með seinn eigin tilverurétt

Hægt var að koma 45 mm dekkjum undir True grit-hjólið, en það var í hærri kanti þess sem í boði var á þeim tíma. Benedikt segir þetta hins vegar hafa breyst mikið undanfarin ár, enda séu malarhjólreiðarnar í mikilli þróun sem mest vaxandi geiri hjólreiðanna undanfarin ár. Lauf ákvað svo að setja á markað hjólið Anywhere, en það var í raun sama hjól og True grit, en án demparagaffalsins.

„Malarhjólreiðar voru alltaf að míga aðeins utan í götuhjólreiðar, því þú áttir að vera með götuhjól sem var hægt að hjóla á í grófara landslagi. Það átti alltaf að geta blandast inn í götuhjólreiðarnar. En það sem hefur verið að gerast er að vinsældir malarhjólreiða hafa mikið aukist og mölin er jafnvel orðin vinsælli víða en götuhjól. Þar með eiga malarhjólin sinn eigin tilverurétt og því þarf ekki lengur að aðlaga þau að götuhjólunum, heldur er hægt að gera það besta fyrir sérhönnuð malarhjól,“ segir Benedikt.

Tvær helstu breytingarnar

Hann segir Seiglu í raun vera rökrétt framhald af True grit. „Við tökum allt það sem við fílum best við það og bætum um betur á helstu sviðum.“ Þetta kemur í grundvallaratriðum niður á tveimur breytingum. Í fyrsta lagi er nú hægt að koma breiðari dekkjum undir hjólið, eða allt að 57 mm (2,25 tommur), þó að Benedikt segi að lítið mál eigi að vera að koma undir það 60 mm. Þetta er hægt með því að breyta bæði hönnun framgaffalsins og auka pláss við afturhjólið.

Framgaffallinn var endurhannaður til að koma breiðari dekkjum undir að …
Framgaffallinn var endurhannaður til að koma breiðari dekkjum undir að framan. Verður nú hægt að setja allt að 57-60 mm dekk undir (2,25 tommur), en áður var hámarkið um 45 mm. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Í öðru lagi er er lögun stellsins breytt, en með því er búin til dempun að aftan og segir Benedikt að með því hafi hugmyndin verið að jafna aðeins út dempun á hjólið í heild. Dempunin næst fram með því að lækka tengipunkt sætisstagsins (e. seatstay) við sætistúbuna (e. seattube).

Stellið varð að einni stórri fjöður

„Grunnhugsunin í þessu öllu var samt að framkvæma hlutina eins einfalt og hægt er og ná fram afturfjöðrun án þess að bæta einhverju á hjólið, eins og snúningsliðum eða örmum sem kallar á viðhald,“ segir Benedikt og bætir við að með því að endurforma stellið hafi hellingur áorkast án þess að hafa fórnað eiginleikum og án auka tilkostnaðar.

„Með því að tengja seatstay inn á miðju sætistúbunnar þá virkar hún eins og stór fjöður og getur svignað sem slík. Ef þetta er hins vegar tengt upp í endann á sætistúbunni [innsk. eins og var áður og er á flestum reiðhjólum] verður þetta mun stífara,“ segir Benedikt.

Þessi fjöðrun næst að hans sögn fram vegna þess að túbur á nútíma hjólum eru orðnar grennri en áður með tilkomu sterkari efna. Til viðbótar við að sætistúban gefi smá fjöðrun segir Benedikt að við bætist að með þessari örlitlu hreyfingu á sætistúbunni þá velti hnakkpípan einnig aðeins aftur á bak og þannig verði að auki til fjöðrun beint í hnakkinn. Allt þetta auki til muna þægindi að aftan til viðbótar við þá fjöðrun sem hafi verið í framgafflinum.

Fyrir tveimur og hálfu ári var greint frá því að Lauf hefði sótt um nokkur einkaleyfi á afturfjöðrun fyrir malarhjól, en Benedikt segir að þessi nálgun sé óháð því og að fyrirtækið vinni enn hörðum höndum að þeim hugmyndum sem hafi þá komið fram. Eitthvað sé þó í að þær muni líta dagsins ljós. „Í okkar plönum eru alveg þrjú ár í einhverja drastíska afturfjöðrun og það á eftir að koma í ljós fyrir hvers konar hjól það yrði,“ segir hann og bætir við að þau hafi þó gert frumgerðir af slíkri hönnun og að þær virki, en þróunarferlið sé þó enn skammt á veg komið.

Lauf er með einkaleyfi á gafflinum sem byggir á glertrefjafjörðrum …
Lauf er með einkaleyfi á gafflinum sem byggir á glertrefjafjörðrum frekar en hefðbundnum demparagöfflum sem eru teleskópískir. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Einskonar endurkoma „hybrid-hjólanna“

Spurður út í markhópinn fyrir malarhjól sem er komið með dempun bæði að framan og aftan, sem og möguleika á svona breiðum dekkjum, segir Benedikt að það sé í raun allur skalinn. Þannig bendir hann á að hægt sé að gera hjól sem séu sérstaklega hönnuð fyrir þá sem vilji komast sem hraðast yfir, en að þau séu hálf ómöguleg í hversdagsleikanum þar sem þau séu höst og stíf. „En málið með malarhjól er að þá nær maður að gera eitthvað töff sem er líka praktískt,“ segir Benedikt. „Við segjumst gera þetta fyrir töff hópinn sem er að keppa, en við vitum að flestir kílómetrarnir eru hjólaðir af fólki sem vill geta hjólað bæði á malbiki og í vinnuna, en svo líka farið út á malarslóða við og við og notað sama hjólið í það.“

„Ætli þetta sé ekki einskonar endurkoma „hybrid-hjólanna“ sem þóttu nú samt lítið spennandi á sínum tíma, en svo er þetta að verða smá töff aftur,“ segir Benedikt og hlær. „Þetta er eins og með „station-bíla“ bætir hann við og tiltekur sérstaklega að sjálfur sé hann harður Volvo-maður. „Þeir urðu ekki almennt töff fyrr en það var farið að kalla þetta jeppa eða bíla sem gátu farið einhverjar torfærur. Samt voru flestir að nota þetta í að sækja krakkana eða fara í IKEA.“

Líkir hann uppgangi malarhjóla við uppgang SUV-bifreiða og að með því komist þessi hjól inn á almennan markað án þess að það sé sérstaklega verið að flagga því sérstaklega að þau séu bæði fyrir malbik og möl.

Telur að flestir muni færa sig upp í 50 mm

Spurður út í aukna breidd dekkja sem er hægt að koma undir hjólið og hvort hann telji að margir muni hoppa á hjólið til að ná 57-60 mm segir Benedikt að hann telji raunsætt að flestir muni færa sig upp í um 50 mm, en að stærri dekk verði þá frekar möguleiki fyrir sérstakar aðstæður. Tekur hann fram að með þessu hafi Lauf farið nokkuð fram úr flestum keppinautum sem í dag bjóði almennt 47-50 mm breidd. Nefnir hann að breiðari dekk geti t.d. gagnast vel upp á hálendi á Íslandi í grófu landslagi og líka víða erlendis þar sem hjólað sé í mikilli drullu.

Aukin dekkjabreidd kom sér vel þegar hjólað var á blautri …
Aukin dekkjabreidd kom sér vel þegar hjólað var á blautri og drullugri jörð. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Opna höfuðstöðvar í Bandaríkjunum

Hjá Lauf starfa í dag níu starfsmenn, þar af tveir í Bandaríkjunum, en þar er um 80% af sölu fyrirtækisins, enda hafa Bandaríkin verið leiðandi í malarhjólreiðamenningunni undanfarin ár. Nýlega kom Lauf upp nýjum höfuðstöðvum fyrir Bandaríkin í bænum Harrisonburg í Virginíu, en Benedikt segir að þar verði miðstöð bæði dreifingar og sölu fyrirtækisins auk þess sem opna á verslun þar. Eftir sem áður fer öll þróun, samskipti við birgja o.fl. fram á skrifstofu fyrirtækisins hér á Íslandi.

Eins og áður segir var sala fyrirtækisins tæplega tvö þúsund hjól á síðasta ári og veltan um 900 milljónir. Benedikt segir að salan í ár hafi farið vel af stað og með þessu nýja hjóli geri fyrirtækið ráð fyrir að salan muni áfram fara vaxandi. „Okkur langar að selja tæplega 4.000 hjól í ár, það væri draumurinn, en kannski raunhæft að miða við 3.500,“ segir hann spurður um markmið í ár.

Fyrirtækið ákvað fyrir um tveimur árum að hætta sölu í öðrum verslunum og selur nú bara í gegnum eigin vefsíðu. Benedikt segir að horft til næstu 3-4 ára sé stefnan að vera aðalvörumerkið í malahjólreiðum sem séu seld samkvæmt því módeli. Segir hann Lauf reyndar í dag vera á þeim stað, en að stefnan sé að halda því ef aðrir komi inn á markaðinn.

Stefna á margföldun á næstu árum

Hann segir jafnframt fordæmi fyrir því úr hjólageiranum að þegar fyrirtæki setji nokkuð þröngan fókus, eins og Lauf geri, að salan geti verið um 30 þúsund hjól árlega. „Það er það sem við erum að horfa til á komandi árum, 20-30 þúsundhjól,“ segir Benedikt, en slíkt myndi skila um 10-20 milljarða veltu. Þrátt fyrir að ársreikningur síðasta árs liggi ekki fyrir segir Benedikt að það stefni í að árið muni koma út eitthvað norðan við núllið og í raun hafi flestir mánuðir síðan fyrirtækið hóf að selja sjálft hjól á vefsíðunni sinni verið grænir.

Hjólað um Mýrar í Borgarfirði.
Hjólað um Mýrar í Borgarfirði. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Líkir þróunarsögunni við sögu Össurar

Benedikt starfaði hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri áður en hugmyndin um Lauf gaffalinn kviknaði og er hann ekki feiminn við að líkja þróunarsögu Lauf við sögu Össurar. „Þetta er einkaleyfadrifið módel sem byggir á vöruþróun og svo markaðssetningu og er svipuð pæling og var hjá Össuri upphaflega,“ segir hann og vísar til þess að Össur hafi upphaflega byrjað á hulsum sem fyrirtækið hafði einkaleyfi á. Það hafi gengið svona upp og ofan, en með samlegðaráhrifum af kaupum á öðrum fyrirtækjum, þannig að hægt var að selja heildarvöru og þróa svo við hana hafi komið mjög vel út. Segir hann þetta ekki ólíkt því þegar Lauf hafi fyrst komið með gaffalinn og svo fært sig yfir í að smíða heilu hjólin. Nú sé það stækkunarferillinn og aukin markaðssetning sem sé framundan.

Spurður hvort búast megi við að Lauf færi út kvíarnar á næstunni, annað hvort í átt að götuhjólum eða fjallahjólum, segir Benedikt að þau séu alltaf að horfa á að víkka út starfsemina út fyrir malarhjólreiðarnar, en að Lauf verði samt áfram fyrst og fremst malarhjólreiðamerki. „Við þurfum að passa upp á okkar DNA, en við horfum til beggja átta, en förum ekki þangað nema við höfum eitthvað fram að færa. Við ætlum okkur ekki að þynna vörumerkið út,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert