Engar sérstakar æfingar fara fram í tengslum við varnaræfinguna Norður-Víking, sem miða að því að auka viðbúnað hér á landi vegna stríðsins í Úkraínu. Bandaríski sjóherinn býr yfir þrautþjálfuðu liði sem er ávallt tilbúinn og getur brugðist við hvaða krísu sem er, og því ekki þörf á slíku. Þetta segir Francis Donovan hershöfðingi í bandaríska sjóhernum, í samtali við mbl.is.
Um er að ræða reglubundna tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku fleiri vina- og bandalagsríkja. Er megintilgangur æfingarinnar að æfa varnir sjóleiða umhverfis Ísland og mikilvægra öryggisinnviða en einnig leit og björgun á sjó og landi.
Upprunalega átti varnaræfingin sem er á vegum Atlantshafsbandalagsins að fara fram árið 2020, en henni ver þó frestað sökum heimsfaraldurs Covid-19. Þótti tímasetningin núna heppileg til að halda slíka æfingu en hún á þó enga tengingu við innrás Rússa.
Donovan segir Norður-Víking bjóða upp á mikilvæga reynslu fyrir lið sitt þar sem aðstæður hér á landi eru allt öðruvísi en þær sem sjóherinn hefur upplifað en stór hluti hans hefur varið miklum tíma í eyðimörkinni síðastliðinn 20 ár.
„Áskoranirnar hafa verið kaldi vindurinn og kalda vatnið,“ segir Donovan sem bætir þó við að þekking og reynsla Landhelgisgæslunnar hafi reynst gríðarlega gagnleg.
„Með því að hlusta á íslenska félaga okkar erum við að læra hvernig við getum nýtt búnaðinn okkar betur.“
Í gær tók þyrla bandaríska hersins ekki á loft og þurfti Gná þyrla Landhelgisgæslunnar að klára æfinguna ein síns liðs. Að sögn Donovan var vindurinn með þeim hætti að það þótti ekki nógu öruggt að senda þyrluna á loft þar sem rokið olli ókyrrum sjó.
„Ef þetta hefði verið neyðartilfelli eða krísa þá hefðum við tekið meiri áhættur en þar sem þetta er æfing þá, og við erum að vinna með félögum okkar, þá tökum við ekki slíkar áhættur.“
Æfing bandarísku landgönguliðanna sem fór fram á Miðsandi í innanverðum Hvalfirði í dag gekk þó mun betur og fór ekkert úrskeiðis.
Donovan var afar lukkulegur með frammistöðu sinna manna og segir aðgerðina í dag hafa verið flókna þó svo að hún hafi ekki minnt á Hollywood hasarmynd.
„Það getur reynst afa hættulegt að framkvæma aðgerð frá sjó og að landi, jafnvel þegar þú ert að æfa. Það þarf að vinna saman sem teymi,“ segir hershöfðinginn.
Aðmíráll Eugene H. Black tók í sama streng og samstarfsfélagi sinn og sagði flækjustig æfinganna sem framkvæmdar voru í dag sýna hversu vel NATO þjóðirnar geta unnið vel saman, og þá sérstaklega Ísland og bandaríski sjóherinn. Tók hann sérstaklega fram þakklæti sitt til Landhelgisgæslunnar en án hennar hefðu þessar æfingar ekki verið mögulegar.
„Þeir hjálpuðu okkur að skilja áhætturnar, þeir hjálpuðu okkur að glíma við þær, að framkvæma aðgerðirnar í miklum vindi og í köldum sjó, ég gæti ekki verið ánægðari,“ segir Black.
Hann segir þetta hafa verið mikilvæga reynslu fyrir Bandaríkjamenn enda séu íslensku aðstæðurnar krefjandi. Kaldi sjórinn umhverfis landið krefst snöggra viðbragða.
„Við vitum hver takmörkin okkar eru og hvaða veður er nauðsynlegt til að framkvæma ákveðnar aðgerðir.“
Spurður hvort hann geti hugsað sér að koma til baka og framkvæma varnaræfinguna um miðjan desember, kveðst hann ekki vera spenntur fyrir því.