„Enginn ráðherra óskaði eftir að færa neitt til bókar“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafi að sjálfsögðu skipst á skoðunum um fyrirkomulag sölunnar á hlut ríksins í Íslandsbanka en bendir á að enginn ráðherra hafi óskað eftir að færa neitt til bókar. 

Mbl.is hafði samband við Katrínu í dag vegna ummæla Lilju Alfreðsdóttur, viðskiptaráðherra, í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Þar segist Lilja hafa komið því skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins að hún hafi „ekki verið hlynnt aðferðafræðinni sem varð ofan á.“

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð um hvort tekist sé á innan ríkistjórnarinnar vegna málsins segir Katrín að umræður hafi að sjálfsögðu farið fram og þingið hafi einnig fengið tíma til að skoða málið og kynna sér aðferðina.

„Að sjálfsögðu voru umræður um fyrirkomulag á sölu hluta í Íslandsbanka þar sem ráðherrar lýstu skoðunum sínum. Mín afstaða hefur verið sú að ferlið yrði eins gagnsætt og skýrt og kostur væri, upplýsingargjöf væri góð og jafnframt lagði ég áherslu á að þingið fengi nægilegan tíma til að skoða málið enda taldi ég að það þyrfti hann til að kynna sér þessa aðferð. Ennfremur, að lokinni sölu, lagði ég mikla áherslu á birtingu lista kaupenda sem fjármálaráðherra birti um leið og hann barst ráðuneytinu.

Enginn ráðherra óskaði eftir að færa neitt til bókar. Hvorki þegar málið var rætt í ríkisstjórn né ráðherranefnd um efnahagsmál.

Ég styð eindregið að málið verði skoðað ofan í kjölinn og tel úttekt Ríkisendurskoðunar eðlilegt skref í þeirri skoðun.“

Eðlilegt að geyma hugmyndir um frekari sölu

Lilja Alfreðsdóttir sagði ennfremur í Morgunblaðin að ekki kæmi til greina að selja Landsbankann. Katrín bendir á að það hafi hvort sem er ekki staðið til. 

„Þá má bæta við að aldrei hefur staðið til að selja Landsbankann og það hefur legið fyrir frá því að ríkisstjórnin var mynduð í fyrra sinn. Ég tel eðlilegt að geyma allar frekari hugmyndir um sölu á hlutum í Íslandsbanka,“ sagði Katrín Jakobsdóttir við mbl.is í dag. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert