Starfshópur um orkumál á Vestfjörðum telur heppilegt að stefna að því að raforkukerfi fjórðungsins verði byggt upp að lágmarki með einni öflugri virkjun á vestfirskan mælikvarða, 20-50 megavött að afli. Einnig verði byggðar fleiri minni virkjanir. Telur hópurinn að setja mætti það markmið að búið yrði að byggja virkjanir með að minnsta kosti 40 MW afli fyrir árið 2030.
Vestfirðir hafa setið eftir varðandi afhendingaröryggi raforku og vitnar starfshópurinn til orkustefnu með að hann eigi að njóta forgangs um úrbætur. Að mati hópsins verður markmiðið að vera það að ná hið minnsta sambærilegu afhendingaröryggi og stjórnvöld hafa sett sem viðmið fyrir landið í heild.
Það er niðurstaða starfshópsins að til þess að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum og tryggja nægilegt afl, ásamt því að auka kerfisstyrk, sé nauðsynlegt að vinna að úrbótum og verkefnum sem snerta nánast alla hluta raforkukerfisins. Þar er átt við meginflutningskerfið, svæðisbundna flutningskerfið, dreifikerfið og síðast en ekki síst orkuframleiðslu innan svæðisins, auk jarðhitaleitar.
Verði tillögurnar að veruleika áætlar hópurinn að meiriháttar straumleysistilfellum í þéttbýli fækki um allt að 90% á næstu sex til sjö árum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.