Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og B-listi hennar lögðu til á stjórnarfundi fyrr í dag að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp. Þetta kemur fram í frétt Vísis.
Þá segir að tillagan hafi verið samþykkt með átta manna meirihluta B-listans en hafi verið harðlega gagnrýnd af fulltrúum minnihlutans í stjórn Eflingar.
Kemur fram að uppsagnirnar séu hluti af breytingartillögu til stjórnar um umfangsmiklar skipulags- og rekstrarbreytingar á skrifstofu Eflingar og að tillagan feli í sér breytingar á ráðningarkjörum allra starfsmanna.
Uppsagnirnar taka gildi um næstu mánaðamót og verða öll störfin auglýst. Þá er gerð krafa um að starfsmenn vinni uppsagnarfrestinn.
Þá segir í frétt Vísis að ástæðurnar sem gefnar eru fyrir skipulagsbreytingum séu meðal annars jafnlaunavottun félagsins, nýjar starfslýsingar, hæfniviðmið og breytingar á launakerfi.
Hvorki Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, né Agniezka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar gátu staðfest fréttirnar við mbl.is. Þá sagðist Agniezka ekki geta tjáð sig því um trúnaðarmál væri að ræða.
Ekki náðist í Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar við vinnslu fréttarinnar.