Salka Valsdóttir, ein Reykjavíkurdætra, segir það hafa verið mikinn sigur fyrir hljómsveitina að koma fram í Söngvakeppninni og finna þennan mikla meðbyr meðal Íslendinga, en hann hafi ekki verið mjög sýnilegur hér á landi til þessa.
Reykjavíkurdætur hafi lengi hugsað um að taka þátt enda margar þeirra miklir aðdáendur keppninnar. „Þetta er svo mikil snilld og steypa og æði,“ segir Salka og nefnir að þeim hafi þótt hin skipulagða kaótík sem einkenni framkomu hljómsveitarinnar eiga erindi í keppnina.
En það var alltaf eitthvað sem stoppaði þær, tónleikaferðalög eða plötuútgáfa, en í Covid-faraldrinum fundu þær loks tíma. „Og það var bara alveg klikkað að gera þetta.“
„Það var búið að preppa mann rosa mikið fyrir að vinna, það var svo mikið orðræðan,“ segir Salka um úrslitin. „Ég var miklu meira búin að finna fyrir kvíðanum yfir því hvað gerist ef ég vinn heldur en kvíðanum yfir hvað gerist ef ég tapa. Þannig það var alveg smá svona högg.“
Reykjavíkurdætur höfnuðu í öðru sæti en systurnar Sigga, Beta og Elín verða fulltrúar Íslendinga í Eurovision 2022.
„En svo var þetta svo mikill sigur fyrir þessa hljómsveit. Við höfum, sögulega, á Íslandi ekki verið elskaðar, alla vega ekki fundið fyrir svona stuðningi. Mér finnst enn þá mjög skrítið að búa í íslensku samfélagi þar sem Reykjavíkurdætur eru elskaðar. Mér finnst það magnað. Ég hélt ekkert að það myndi gerast nokkurn tímann,“ segir Salka.
„Við stýrðum okkar flaggi svolítið annað út af því það var ekkert mjög auðvelt að koma fram hérna oft og ekki mikill meðbyr, ekki sýnilegur alla vega. Fólk var svolítið að hvísla að manni að það fílaði mann.“
Salka segir að þrátt fyrir að mikið hafi verið talað um að Reykjavíkurdætur væru ögrandi hljómsveit þá hafi það aldrei verið markmiðið að ögra. „Mjög oft vorum við bara að gera eitthvað sem okkur fannst skemmtilegt og frelsandi og gaman og hugsuðum að væri að fara að lyfta fólki. En fólk tók því sem einhverju sem væri ofbeldisfullt eða ógeðslegt,“ segir hún og vísar í umræðuna um framkomu sveitarinnar í Vikunni með Gísla Marteini árið 2016.
„Það var ákvörðun tekin af fjölmiðlum held ég og háværustu röddunum um að þetta væri eitthvað batterí sem hefði það að markmiði að strjúka fólki öfugt. Það var í rauninni aldrei þannig. Og það sem mér fannst svo gott við Söngvakeppnina var að við fengum svolítið að kynna Reykjavíkurdætur á okkar forsendum á Íslandi í raun og veru í fyrsta skipti. Það að fá að gera það og í rauninni uppskera ást er mikill sigur.“
Salka var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum og sagði frá störfum hljómsveitanna Reykavíkurdætra og Cyber, hljóðmannsnámi sínu og störfum innan veggja leikhússins, sem tónlistarstýra og hljóðmyndahönnuður.
Hún sér meðal annars um tónlist og hljóðmynd, ásamt Davíð Þór Jónssyni, í verkinu Fyrrverandi sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu 9. apríl.