Beint: Bjóða til fundar með flotaforingja

Frá heræfingu í Hvalfirði í gær.
Frá heræfingu í Hvalfirði í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, býður til opins fundar með Daniel Dwayer, flotaforingja annars flota hjá bandaríska hernum og yfirmanni herstjórnarmiðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk, í Safnahúsinu á Hverfisgötu klukkan 16 í dag. Streymi af fundinum má sjá hér að neðan.

Áhugi á starfi félagsins hefur verið mikill, ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu, og greint var frá góðri þátttöku í NATO-skóla félagsins fyrr í vor. Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Varðbergs og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stýrir fundi.

Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag að aukinn áhugi ungs fólks á varnarmálum sé áþreifanlegur. „Það verður áhugavert að heyra hvað Dwayer hefur að segja um stöðu mála í Norður-Atlantshafi og hvernig hann sér fyrir sér að hlutirnir þróist á næstum árum í varnar- og öryggismálum í norðanverðu Norður-Atlantshafi,“ segir Njáll.

Nauðsynleg umræða

„Það er mikilvægt að á Íslandi sé góð og upplýsandi umræða um þennan mikilvæga málaflokk. Umræðan hefur verið takmörkuð í það minnsta síðastliðin 10-15 ár og nauðsynlegt að breyta því,“ segir hann enn frekar.

Á fundinum mun flotaforinginn fjalla um varnarsamstarf yfir Atlantshafið og stöðu hernaðar og samskipta við GIUK-hliðið.

Fundinum verður streymt beint á mbl.is. Ferill Dwayers er langur hjá bandaríska hernum og á hann meðal annars að baki yfir 3.800 flugtíma á F-18 orrustuþotum og yfir 1.100 á flugmóðurskipi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert