Fundi starfsfólks Eflingar, sem boðað var til eftir að fréttir bárust í gær af því að stjórn félagsins hefði ákveðið að segja upp öllu starfsfólki, er nú lokið. Enginn af starfsmönnunum vildi ræða við fjölmiðla eftir fundinn, en Drífa Snædal forseti ASÍ staðfesti við fjölmiðla að uppsagnarbréf hefðu enn ekki borist.
Þungt var yfir starfsfólkinu og komu sumir út með tárin í augunum að sögn blaðamanns mbl.is sem var á staðnum. Hélt starfsfólkið aftur á sína starfsstöð eftir fundinn.
Á sama tíma og fundurinn fór fram voru nokkrir félagsmenn mættir til að sækja lykla fyrir sumarhús félagsins en gripu í tómt þar sem allir starfsmennirnir voru á fundinum.