Sigló Freeride hátíðin, sem haldin var í annað sinn á Siglufirði síðastliðna helgi, gekk vonum framar og voru aðstæður á skíðasvæðinu í Skarðsdal með þeim bestu sem sést hafa síðastliðna tvo mánuði.
„Það var umtalað hve vel helgin gekk og hversu vel hópurinn skemmti sér,“ segir Magnús Arturo Batista, fjallaskíðagarpur og einn skipuleggjenda hátíðarinnar, í samtali við mbl.is.
Alls mættu um 230 manns á hátíðina en þar af höfðu 150 keypt sér helgararmband sem veitti þeim aðgang að öllum aukaviðburðum tengdum hátíðinni. Þá voru alls 47 sem kepptu í rennsli utan brauta á snjóbretti og skíðum, að sögn Magnúsar.
„Það er frábært að sjá hversu marga öfluga utanbrautarmenn- og konur við eigum á Íslandi. Svo voru 11 keppendur sem komu erlendis frá, þ.á.m. mjög vanir utanbrautarskíðamenn frá Colorado sem höfðu rekist á auglýsingu fyrir hátíðina í bakaríinu á Siglufirði og ákveðið í kjölfarið að skrá sig í keppnina.“
Athygli vakti að stærsti flokkurinn í keppninni í ár var skíðaflokkur kvenna en alls voru 16 konur sem kepptu í þeim flokki. Magnús segir það hafa verið sérstaklega ánægjulegt að sjá enda séu karlmenn enn í meirihluta í íþróttinni, bæði hér heima og á alþjóðavísu.
„Við eigum frábærar fjallakonur hér á Íslandi sem hafa klárlega verið duglegar að finna hverja aðra og kannski duglegri við það heldur en strákarnir. Þær hafa verið að mynda allskonar hópa sem fara saman til fjalla í skíðaferðir og eru almennt mjög duglegar að peppa hverja aðra.“
Sem fyrr sagði voru aðstæður á skíðasvæðinu í Skarðsdal með besta móti yfir Sigló Freeride en að sögn Magnúsar hafa aðstæður á Tröllaskaga verið afar óvenjulegar í vetur og mikið verið um skíðaslys sökum þeirra.
„Síðastliðna tvo mánuði hefur ekki verið ýkja mikill snjór og viðvarandi ís- og harnlög sem mikil fallhætta stafar af. Í slíkum aðstæðum er einfaldlega erfiðara að fóta sig. Meira álag er á skíðabúnað og ef fólk lendir í því að detta þá er gríðarlega erfitt að stöðva fallið. Flest slys sem orðið hafa síðastliðnar vikur hafa verið beintengd falli á þessum harnlögum.“
Á fyrsta degi Sigló Freeride, fimmtudaginn 7.apríl, féll snjóflóð úr Skeiðsfjalli í Svarfaðardal, sem er í um 54 kílómetra fjarlægð frá Siglufirði. Þrír bandarískir ferðamenn, sem sagðir eru vanir útivistar- og fjallamenn, urðu undir flóðinu og einn þeirra lést. Spurður segir Magnús bæði gesti og keppendur Sigló Freeride hafa verið uggandi yfir fréttum af slysinu.
„Allar fréttir af alvarlegum skíðaslysum sökum aðstæðna hafa áhrif og slá á hópinn. Fólk sér sig sjálft í sömu aðstæðum og hughrifin eru slík að þau fá alla til að hugsa sig um tvisvar. Það er eðlilegt að spegla sig í aðstæðunum.“
Sigló Freeride hátíðin gekk þó sem betur fer slysalaus fyrir sig enda var allt kapp lagt á að tryggja öryggi starfsfólks, gesta og keppenda á svæðinu, að sögn Magnúsar.
„Það er okkur gríðarlega mikilvægt að keppnin fari fram á fagmannlegan hátt, að öryggi og aðstæður séu tryggðar og að öflugt viðbragðsteymi sé tiltækt verði óhapp. Það seinasta sem við viljum gera er að setja fólk í aðstæður sem eru ekki skynsamlegar og tökum við allar okkar ákvarðanir með öryggi í fyrsta sæti.“
Því hafi skipuleggjendur hátíðarinnar lagt sérstaka áherslu á að kynna alla öryggisumgjörð keppninnar vel og eiga opið samtal við keppendur um aðstæður á svæðinu, sem geta verið breytilegar frá degi til dags, ásamt því að hafa vel þjálfað fólk úr röðum viðbragðsaðila á staðnum yfir hátíðina.
„Teymi fjallaleiðsögumanna var í viðbragðsstöðu á toppi fjallsins, sjúkraflutningamenn á skíðum dreifðir um keppnishlíðina og sérhæft sjúkraflutningateymi með allan viðbúnað bæði neðst við fjallið og efst uppi á því. Þá var björgunarsveitin Strákar einnig með bíl og tvo vélsleða tilbúna til björgunar neðst á skíðasvæðinu.“
Formlegri dagskrá hátíðarinnar lauk svo með tónleikum á Kaffi Rauðku sl. laugardag þar sem plötusnúðarnir Hot Events Reykjavík og Doctor Victor og raftónlistartvíeykið ClubDub spiluðu fyrir fullu húsi langt fram eftir nóttu.
„Þeir sáu til þess að allir skemmtu sér konunglega og settu algerlega punktinn yfir i-ið á frábærri helgi. Það var umtalað meðal þeirra hvað stemmningin var góð á tónleikunum og hve auðvelt var að halda henni uppi allt kvöldið enda flestir í salnum í sæluvímu eftir góða daga á fjöllum,“ segir Magnús.
Heilt yfir gekk hátíðin því vel og er það öllu því frábæra fólki sem kom að skipulagningu hennar að þakka, að sögn Magnúsar.
„Það var svo gaman að sjá hversu vel þetta samfélag vann að því að endurvekja hátíðina og fyrir það erum við þakklát. Þetta hefði aldrei verið hægt án styrktaraðila okkar, starfsmanna skíðasvæðisins á Siglufirði, staðarhaldara á Kaffi Rauðku og samvinnu frábærra heimamanna, fjallafólks og annarra fagmanna sem komu víða að. Án áhuga þeirra væri svona frábær viðburður ekki mögulegur.
Við erum þó langstoltust af því hversu vel hátíðinni gengur að draga saman alla þá sem hafa áhuga á að renna sér utan brauta og hlökkum við til að halda áfram að byggja upp frábært samfélag með viðburðum næstu ára.“
Að baki Sigló Freeride hátíðinni stendur fjallamennskufyrirtækið 600 Norður sem hefur það að markmiði að byggja upp fjallasenuna á Norðurlandi. Hjá 600 Norður starfar hópur öflugra fjallaleiðsögumanna, hönnuða og viðskiptafræðinga sem vinna að skapandi hugmyndum sem tengjast fjallamennsku og útivist.