Kallað eftir túlkum vegna barna á flótta

Börn á flótta frá Úkraínu.
Börn á flótta frá Úkraínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum um úkraínska kennara, tengiliði og túlka hér á landi vegna skólagöngu barna á flótta í íslenskum skólum.

Mikill fjöldi fólks hefur flúið til Íslands frá Úkraínu á undanförnum vikum eða eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Fjöldi þeirra sem eru undir sjálfræðisaldri er á við marga bekki í íslenskum skólum. 

„Kallað hefur verið eftir upplýsingum um úkraínska kennara, tengiliði og túlka á Íslandi. Þá höfum við fengið upplýsingar um að börn í Úkraínu byrji snemma að læra ensku,“ segir í skriflegu svari Mennta- og barnamálaráðuneytisins við spurningu mbl.is um hvort ekki þurfi einstaklinga sem tala úkraínsku og íslensku/ensku til að aðstoða við að koma börnum af stað í námi í skólum Íslandi. 

Mbl.is forvitnaðist um það hjá ráðuneytinu hvernig gangi að koma börnum flóttafólks frá Úkraínu fyrir í skólum hérlendis. Samkvæmt tölum hinn 8. apríl voru komin 268 ungmenni undir 18 ára aldri til landsins. Tvö ráðuneyti eru að vinna í málinu ásamt mörgum sveitarfélögum. 

Mennta- og barnamálaáðuneytið sendi mbl.is skriflegt svar: 

„Mennta- og barnamálaráðuneytið setti á fót viðbragðsteymi innan ráðuneytisins vegna móttöku barna og ungmenna á flótta frá Úkraínu í íslenskt skólakerfi. Markmiðið er að taka vel á móti börnum og ungmennum frá Úkraínu og tryggja þeim aðgang að skóla- og frístundaþjónustu auk sálræns og félagslegs stuðnings. 

 Mótaðar hafa verið tillögur um:

  1. Samráðs- og viðbragðsteymi íslenskra stjórnvalda fyrir börn á flótta til lengri tíma.
  2. Stuðning ríkisins vegna skólaþjónustu og frístundaúrræða á leik- og grunnskólastigi.
  3. Aðkomu framhaldsskóla að móttöku og menntun ungmenna frá Úkraínu.

Við undirbúning þessara tillagna hefur ráðuneytið haft samráð við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Ölfus, Borgarbyggð og aðra lykilaðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert