Logi stefnir á að verða atvinnudansari í ballett

Logi Guðmundsson er kattliðugur og með hreyfingarnar á hreinu.
Logi Guðmundsson er kattliðugur og með hreyfingarnar á hreinu. Ljósmynd/Neal John Smith

Ballettdansarinn Logi Guðmundsson í Listdansskóla Íslands hefur þekkst boð Helga Tómassonar um að sækja fjögurra vikna námskeið hjá San Francisco-ballettskólanum í sumar og í kjölfarið fer hann í Ballettskóla Amsterdam.

Logi byrjaði snemma að æfa samkvæmisdansa en þegar mótdansari hans hætti og fór í fimleika fékk hann ekki aðra dömu í staðinn og skipti yfir í frjálsar íþróttir. Hann fann sig ekki þar og eftir nokkra mánuði eða í janúar 2015 hóf hann nám í Listdansskóla Íslands, átta ára gamall, eftir að hafa hrifist af leikritinu um Billy Elliot í Borgarleikhúsinu. „Verkið er um ungan dreng í ballett og það var svo fallegt að sjá hann dansa, að sjá ballettinn í allri sinni dýrð,“ rifjar hann upp. „Hreyfingarnar voru svo ónáttúrulegar en litu út fyrir að vera svo einfaldar en blekkingin er eitt af því skemmtilega við ballettinn. Í raun er þetta mjög erfitt og það kostar blóð, svita, tár og tíma í æfingasalnum að láta erfiðu sporin líta út fyrir að vera einföld.“

Afmælissýning í leikhúsinu

Að undanförnu hafa æfingadagarnir verið langir vegna 70 ára afmælissýningar Listdansskóla Íslands í Borgarleikhúsinu á morgun. Logi er í klassísku deildinni, sem sýnir spænska ballettinn Don Quixote, þar sem hann er í helsta karlhlutverkinu. Auk þess kemur hann fram í nútímaútfærslu á Svanavatninu.

Logi þótti mjög efnilegur í samkvæmisdönsunum og það tók hann tíma að sætta sig við ballettinn. „Mér fannst þetta ekki mjög skemmtilegt fyrstu þrjú árin og vildi oft hætta.“ Hann áréttar að til þess að geta framkvæmt öll erfiðu ballettsporin, sem kennd séu seinna, þurfi að hafa mjög góðan grunn og það taki tíma að fara í gegnum allar stöður og hreyfingar rétt og fullkomlega. Það krefjist mikillar einbeitingar og vilja. „En ég komst í gegnum það og varð betri dansari fyrir vikið.“

Rækt við grunnæfingar skapar ballettmeistarann.
Rækt við grunnæfingar skapar ballettmeistarann. Ljósmynd/Neal John Smith

Þegar Logi, sem er í 10. bekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, byrjaði í ballett var hann ári yngri en skólafélagarnir. Hann hefur lokið sjö ára grunnnámi og er á fyrsta ári af þremur í framhaldsdeild en svo getur farið að hann ljúki áfanganum í Amsterdam, þar sem hann komst í gegnum þröngt nálarauga í inntökuprófinu í lok febrúar. Hann segir að stuðið og stemningin hafi oft verið meiri í samkvæmisdönsunum en í ballettinum og þeir hafi ekki verið eins erfiðir en ballettinn hafi vinninginn. „Hann er eitt það skemmtilegasta sem ég geri.“

Skólafélagarnir eru ekki í ballett og Logi hefur fengið að finna fyrir því. „Þegar ég var yngri var einstaka sinnum gert grín að mér og sagt að ballett væri bara fyrir stelpur, en í því sambandi er áhugavert að fyrstu ballettdansararnir voru allir karlmenn. Þótt vinsæl nútímahugsun sé að líta á ballett sem athöfn fyrir stúlkur og konur var víða óviðeigandi eða jafnvel ólöglegt fyrir konur að dansa ballett í Evrópu fyrr en seint á 16. öld.“

Viðhorfið hefur breyst með tímanum og Logi segir að nú geri allir sér grein fyrir að hann leggi hart að sér rétt eins og aðrir í öðrum greinum. Margir hafi séð myndbönd þar sem hann sýnir listir sínar og sjái hvað þetta er flott og erfitt. „Núna bera jafnaldrarnir virðingu fyrir því sem ég er að gera en krakkar eru alltaf dómharðari þegar þeir eru yngri.“

Stefnan hjá Loga er skýr. „Mig langar til þess að verða atvinnudansari. Ég hef mikla ástríðu fyrir ballett, en hann tekur mjög mikið á og þær stundir koma sem ég er gersamlega úrvinda af þreytu og syfju eftir langar og strangar æfingar. Þá verð ég að herða upp hugann og tileinka mér jákvætt hugarfar og þrautseigju.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert