Pólitískt þegar konur gera það

Reykjavíkurdætur vöktu mikla athygli fyrir framlag sitt til Söngvakeppninnar nú í vor en höfðu fram að því verið umdeildar. Salka Valsdóttir, ein meðlimanna, segir það sé í sjálfu sér pólitískt þegar konur stíga á svið með þeim hætti sem sveitin gerir. 

„Við erum alla vega margir pólitískt þenkjandi einstaklingar og með sterkar skoðanir,“ segir hún og bætir við að það að standa á sviði með átta konum sem semja efnið sitt sjálfar, framleiða allt sjálfar, kóreógrafera allt sjálfar og eru bestu vinkonur að hafa gaman saman á sviði sé í raun pólitískt.

„Þetta er allt hlutir sem eru pólitískir þegar konur gera það. Bara það að skemmta sér saman á sviði er í rauninni rosalega stórt högg í feðraveldið finnst mér.“ 

„Þegar við vorum að byrja dvaldi í okkur rosa sterk tilfinning að við þyrftum alltaf að vera að segja eitthvað geðveikt mikilvægt.“ Þegar á leið hafi þær hætt að setja þá pressu á sig, sem er algeng hjá konum, að allt þyrfti að vera fullkomið. 

„Við vildum frekar kannski gefa okkur rými til að vera ógeðslega nettar eða ógeðslega fyndnar eða asnalegar og amatörar líka.“

Salka var gestur Dagmála og ræddi þar sögu Reykjavíkurdætra og þátttökuna í Söngvakeppninni, dúóið Cyber og störf sín sem hljóðmyndahönnuður í íslenskum og erlendum leikhúsum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert