Uppsagnirnar í samræmi við kosningaloforð

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vísar því á bug að …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vísar því á bug að hópuppsögnin skapi hættulegt fordæmi fyrir hinn almenna vinnumarkað. mbl.is/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar telur ákvörðun stjórnar félagsins um að samþykkja tillögu sem lýtur að því að segja upp öllu starfsfólkinu á skrifstofunni ekki vera slæmt fordæmi fyrir vinnumarkaðinn.

Þá telur hún sig ekki hafa misst stuðning félagsfólks Eflingar og ef eitthvað er sé verið að efla þjónustu við það. Sólveig segir jafnframt að ekki verði brotið á réttindum starfsfólks við uppsagnarferlið. Hún er einnig harðorð í garð Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem tjáði sig um uppsagnirnar í morgun.

Greint var frá því í gær að öllu starfs­fólki Efl­ing­ar yrði sagt upp störf­um og að til­laga þess efn­is hafi verið samþykkt með átta manna meiri­hluta Baráttulistans sem Sólveig Anna leiddi í síðustu kosningum innan stéttarfélagsins. Í samtali við mbl.is staðfestir Sólveig þessar fréttir.

„Það var tillaga lögð fram af mér samþykkt. Öllu starfsfólki sagt upp en allir hvattir til þess að sækja um. Það er sem sagt núna í gangi samráð við trúnaðarmann starfsfólksins þannig að það er samkvæmt lögum um hópuppsagnir. Um það skal ríkja trúnaður og það er leitt að sá trúnaður hafi ekki verið virtur.“

Markmið breytinga að innleiða umbætur

Hún segir tillöguna hafa verið í samræmi við stefnuskrá Baráttulistans, þar var kveðið á um áframhaldandi umbætur í rekstri. Að sögn Sólveigar felur það m.a. í sér að taka á úreltum venjum sem hafa safnast upp í gegnum árin og áratugina í ráðningarsamningum starfsfólks.

„Markmið breytinganna er auðvitað að innleiða umbætur í þjónustu við félagsfólk. Við viljum að þjónusta við félagsfólk Eflingar sé sú metnaðarfyllsta sem veitt er hjá verkalýðsfélagi á landinu. En markmiðið er líka að tryggja jafnrétti, samræmi og gagnsæi í ráðningarkjörum sem ekki hefur verið til staðar.“

Skapar ekki hættulegt fordæmi

Áður hefur komið fram að ástæðan fyrir hópuppsögninni sé meðal annars jafnlaunavottun, nýjar starfslýsingar, hæfniviðmið og breytingar á launakerfi.

Spurð hvort að hópuppsögn af þessu tagi sé ekki í andstöðu við það sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir síðustu áratugi, kveðst Sólveig ekki geta tjáð sig um það þar sem samráð við trúnaðarmann sé enn í gangi. 

„Aðilar þessa samráðs hafa einfaldlega ekki leyfi til þess að ræða nánar hvað er að gerast á meðan að það stendur yfir og ég náttúrulega bara hyggst virða trúnað við það. Annað kemur ekki til greina.“

Þá vísar Sólveig því á bug að hópuppsögnin skapi hættulegt fordæmi fyrir hinn almenna vinnumarkað. Kveðst hún ekki óttaslegin yfir því.

En óttastu að félagsmenn í Eflingu missi trú á félaginu út af þessari ákvörðun?

„Alls ekki. Að sjálfsögðu ekki. Af hverju í ósköpunum ættu þau að gera það. Félagsmenn í Eflingu kusu Baráttulistann. Við hlutum umboð félagsfólks í Eflingu í lýðræðislegum kosningum til þess auðvitað að halda áfram að leiða okkar árangursríku og markvissu stéttabaráttu sem fólk sannarlega kann að meta.

Og félagsfólk vill auðvitað að öll þjónusta félagsins sé til fyrirmyndar fyrir það og ég tel að félagsfólk Eflingar muni að sjálfsögðu styðja allar skipulagsbreytingar sem snúast um nauðsynlega umbótavinnu á skrifstofum félagsins.“

Segir að lögum verði fylgt

Spurð hvert starfsfólk Eflingar, sem á jafnframt aðild að stéttarfélaginu, geti leitað ef það telur á sér brotið með þessari breytingartillögu, kveðst Sólvegi ekki geta svarað því og vísar hún enn á ný í trúnaðinn.

„Að sjálfsögðum verður öllum lögum fylgt og öll vinnubrögð í kringum þetta eru fagleg en vönduð. Og ekki verður á nokkurn hátt brotið á rétti þeirra sem starfa á skrifstofu Eflingar.“

Ótrúlegt framferði Drífu

Þá kveðst hún ósátt við viðbrögð Drífu Snædal forseta Alþýðusambandsins sem fordæmdi fyrr í dag uppsagnirnar.

„Þá bregður svo við að forseti Alþýðusambandsins stígur fram og dirfist að fordæma lýðræðislegar stjórnir Eflingar sem mönnuð er verka- og láglaunafólki. Þetta er náttúrulega ótrúlegt framferði. Efling er næststærsta stéttarfélagið innan Alþýðusambandsins.

Hún hefur ekki leitað neinna upplýsinga eða skýringa frá mér, samt dirfist hún að gera þetta. Fordæma opinberlega með algjörlega ómálefnalegum hætti og innihaldslausum yfirlýsingum þá ákvörðun sem að stjórn hefur tekið og hefur heimild til þess að taka. Stjórn undir forystu formanns sem að nú í tvígang hefur hlotið afdráttarlausan stuðning félagsmanna Eflingar í lýðræðislegum kosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert