Verði refsivert að aka rafhlaupahjólum undir áhrifum

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að flestir ungra vegfarenda (18 …
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að flestir ungra vegfarenda (18 til 24ra ára) hafi notað rafhlaupahjól á síðustu sex mánuðum og 40% þeirra höfðu ekið tækjunum undir áhrifum áfengis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði á dögunum leggur til að refsivert verði að stjórna rafhlaupahjólum ef magn áfengis er meira en 0,5 prómill í blóði ökumanna, eða 25 mg vínanda í hverjum lítra lofts. 

Þá er lagt til að sektir vegna brota verði hækkaðar í forvarnarskyni og miðað við að ljúka málum á staðnum með greiðslu sektar, fremur en að handtaka ökumenn og færa á lögreglustöð til skýrslutöku og blóðrannsóknar, ef hjá því verður komist.

Hlutverk starfshópsins er að kortleggja stöðu smáfarartækja hér á landi og vinna tillögur til ráðherra að úrbótum. 

Tillögurnar sem hópurinn hefur skilað geyma drög að sex tillögum til úrbóta er miða að því að auka öryggi notenda smáfarartækja og annarra vegfarenda auk þess að styðja við notkun fjölbreyttra umhverfisvænna fararskjóta með öruggum hætti. Í skýrsludrögunum er aðaláhersla lögð á rafhlaupahjól en það eru algengustu smáfarartækin í umferð.

Yngri en 16 ára verði með hjálm

Lagt er til að aldursmörk ökumanna aflknúinna smáfarartækja, líkt og rafhlaupahjóla, verði 13 ár en hjálmaskylda miðist við yngri en 16 ára.

Eins og staðan er í dag eru engin mörk á aldri notenda rafhlaupahjóla en framleiðendur setja þó almennt 14 til 16 ára aldursmörk á notendur.

Önnur tillaga starfshópsins gengur út á að sett verði mörk á afl smáfarartækja með það að markmiði að mögulegur hámarkshraði þeirra fari ekki yfir 25 km/klst. Hámarksafl aflknúinna smáfarartækja verði 1.000 W. Þá verði hjól sem eru yfir settum mörkum ekki leyfileg í umferð.

Rafhlaupahjól á göturnar

Ef tillögur verkefnishópsins hvað varðar ölvun við akstur og aldursmörk ganga eftir telur verkefnishópurinn að leyfa skuli akstur rafknúinna smáfarartækja í almennri umferð á vegum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. eða lægri, enda getur veghaldari lagt sérstakt bann við umferð þeirra á einstökum vegum eða vegköflum, sé ástæða til. 

Reiknað er með að starfshópurinn sem skipaður er fulltrúum innviðaráðuneytis, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar muni skila innviðaráðherra tillögum til úrbóta 1. júní 2022.

Lesa má skýsluna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert