„Við köllum eftir því að félagsmenn taki ábyrgð“

Ragnheiður segir fólk komið á þann stað að því finnst …
Ragnheiður segir fólk komið á þann stað að því finnst það ekki skulda félagsfólki Eflingar neitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsfólk á skrifstofu Eflingar hélt hópinn eftir starfsmannafund sem haldinn var í morgun vegna yfirvofandi hópuppsagnar. Margir voru grátandi, en fólk hafði stuðning hvert af öðru. Í hópnum er fólk sem er komið yfir sextugt og með yfir 20 ára starfsreynslu. 

Óvíst er hve margir hafa hug á því að sækja um aftur hjá stéttarfélaginu þegar störfin verða auglýst að nýju, en það hugnast ekki mörgum eins og staðan er í dag. Þetta segir Ragnheiður Valgarðsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Eflingar og fyrrverandi trúnaðarmaður. Hún segir að starfsfólkið sé í losti. „Það hefði hefði enginn getað ímyndað sér þessa atburðarás,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Þeir sem ætluðu sér að halda áfram, þeir eru ekki að fara að sækja um störfin sín aftur og ég geri ekki ráð fyrir að þeir séu að fara að kenna nýjum. Hún er búin að ganga fram af öllum.“

Hegðun sem ekki er sæmandi

Greint var frá því í gær­kvöldi að öllu starfs­fólki Efl­ing­ar yrði sagt upp störf­um og að til­laga þess efn­is hafi verið samþykkt með átta manna meiri­hluta Baráttulist­ans, en hafi verið harðlega gagn­rýnd af full­trú­um minni­hlut­ans í stjórn Efl­ing­ar. Var starfsmannafundur haldinn í morgun vegna þessara frétta, en enginn hefur enn fengið uppsagnarbréf í hendurnar.

Í til­kynn­ingu sem Baráttulistinn sendi frá sér fyrir stundu seg­ir að breyt­ing­ar inn­an Efl­ing­ar séu hugsaðar til að inn­leiða sam­ræmi, jafn­rétti og gagn­sæi í launa­kjör­um starfs­fólks, inn­leiða eðli­legt bil milli hæstu og lægstu launa á skrif­stof­un­um, og gera aðrar löngu tíma­bær­ar og nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á skipu­lagi.

Óhjá­kvæmi­legt er að segja upp öll­um ráðning­ar­samn­ing­um, en allt starfs­fólk verður hvatt til að sækja um aug­lýst störf að nýju,“ seg­ir meðal annars í til­kynn­ing­unni.

„Ætli hún þori ekki að mæta til vinnu?“

Ragnheiður segir starfsfólkið efast um lögmæti hópuppsagnarinnar. „Þetta er hegðun sem er ekki sæmandi og þau myndu aldrei láta fyrirtæki úti í bæ komast upp með svona hegðun, að segja upp öllum til að ná jafnlaunavottun.“

Uppsagnir starfsfólksins munu taka gildi þann 1. maí næstkomandi og segir Ragnheiður það skjóta skökku við á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Þá hefur verið greint frá því að gerð verði krafa um að fólk vinni uppsagnarfrestinn. Starfsfólkið veltir því fyrir sér hvernig Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sjái þetta fyrir sér. Hún tók við formennsku í félaginu á föstudag en hefur enn ekki mætt á skrifstofuna. 

„Ætli hún þori ekki til að mæta til vinnu?“ spyr Ragnheiður. Hún segir fólk spyrja sig hvort hún ætli jafnvel ekki að mæta á skrifstofuna fyrr en í ágúst og þá með nýtt starfsfólk með sér.

Sólveig verði sjálf að afhenda lykla af orlofshúsum

Meðan á fundinum stóð í morgun þurftu félagsmenn frá að hverfa þar sem skrifstofan var lokuð, en einhverjir ætluðu að sækja lykla af orlofshúsum fyrir páskana. Margt starfsfólk treysti sér ekki til vinnu eftir fundinn og óvíst er hve margir mæta á morgun. Töluverður þrýstingur er á að halda úti óskertri þjónustu við félagsmenn, en Ragnheiður telur að það verði mjög erfitt.

Starfsfólkið sé nú margt komið á þann stað að finnast það ekki skulda félagsfólki Eflingar neitt lengur - þeim sem kusu Sólveigu. Hún geti einfaldlega sjálf mætt á skrifstofuna og afgreitt lykla fyrir orlofshúsin.

„Við verðum að halda opnu og veita þjónustu, en félagsmenn skulda okkur. Félagsmenn sem eru samþykkir að hún se að beita þessu ofbeldi. Við köllum eftir því að félagsmenn taki ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp í félaginu. Sólveig verður þá bara að tryggja að það verði full þjónusta til félagsmanna,“ segir Ragnheiður.

Starfsfólkið getur ekki leitað réttar síns

Hún er sjálf félagsmaður í Eflingu, líkt og margir kollegar hennar á skrifstofunni, en hér áður fyrr var gerð krafa um að starfsfólk Eflingar væri í félaginu. Því hefur hins vegar verið breytt og nú er hluti af starfsfólkinu í VR og BHM. 

Þeir sem eru í Eflingu eiga nú mjög erfitt með að leita réttar síns, því ekki leitar fólk til stéttarfélagsins, líkt og eðlilegt væri í þessari stöðu. Ragnheiður segir það út í hött að starfsmenn stéttarfélaga geti ekki leitað réttar síns, líkt og aðrir. Þeir geti til að mynda ekki nýtt sér lögfræðiþjónustu félagsins og þurfi því að leita aðstoðar úti í bæ. Margir sitji í þeirri súpu, eins og hún orðar það. Það getur því orðið erfitt fyrir starfsfólk á skrifstofu Eflingar að fá þann stuðning sem annað launafólk myndi fá í sömu stöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert