„Það komu yfir 70 manns á kynningarfund í Hörpu, bæði veitingaaðilar og áhugasamir fjárfestar. Það er mikill áhugi á viðskiptatækifærum í Leifsstöð,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia.
Morgunblaðið greindi á dögunum frá því að nú stendur yfir útboð á rekstri tveggja veitingastaða á besta stað í norðurbyggingu Leifsstöðvar. Mögulegt er að sá sem hreppir hnossið geti einnig tekið að sér rekstur þriðja staðarins sem verður á öðrum stað í flugstöðinni. Í kynningargögnum Isavia má sjá að fleiri útboð verða á verslunarrýmum í Leifsstöð á þessu ári. Raunar er það svo að um algjöra endurnýjun verður að ræða á næstu misserum. „Það eru allir samningar að klárast hjá okkur nema um veitingastaðinn Hjá Höllu, hann er ekki hluti af þessu,“ segir Gunnhildur.
Á næstunni verður boðinn út rekstur gleraugnaverslunar í Leifsstöð, rekstur verslunar fyrir gjafavöru og útivist, gjaldeyrisþjónustu auk veitingastaða. Þá verða svokölluð pop up-rými auglýst en þau eru leigð til eins árs í senn og eru ekki útboðsskyld.
Gunnhildur segir að þrjú stór veitingatækifæri verði boðin út nú og á næstu tveimur árum. „Við skiptum þessum veitingarýmum upp í þrjú pakkatilboð. Það er gert í samráði við markaðinn. Þegar við fórum að undirbúa útboðið sem nú stendur yfir kom skýrt fram að þeim sem höfðu áhuga fannst mikilvægt að veitingastaðirnir væru settir saman í pakka. Þeir sáu fram á mikla hagræðingu af því að geta rekið staðina saman og við hlustuðum á þessi sjónarmið.“
Hún segir að auk staðanna sem nú eru boðnir út, sem eru skandinavískur staður og café/bistro, verði boðnir saman út þrír staðir sem skilgreindir eru sem kaffi/brauð. Staðirnir þrír verða á mismunandi stöðum í flugstöðinni en sá sem rekur þá geti notið hagræðis og rekið þá sem eina einingu. Að síðustu verða boðnir út tveir matarmarkaðir. „Þeir munu þá leysa af hólmi það sem í dag er Mathús í norðurbyggingunni,“ segir Gunnhildur. Hún segir að af þessum þremur stóru pökkum geti sami rekstraraðili aðeins fengið tvo. Þar með verði fjölbreytni í úrvali tryggð og samkeppni fái þrifist.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.