Búast við enn frekari hækkun fasteignaverðs

Mikil eftirspurn er eftir fasteignum í Reykjavík þessa dagana.
Mikil eftirspurn er eftir fasteignum í Reykjavík þessa dagana. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Stjórnvöld telja að fasteignaverð komi til með að hækka enn frekar á komandi misserum. Ein höfuð ástæðan fyrir þessari hækkun er síaukin eftirspurn eftir fasteignum en metfjöldi keypti sína fyrstu íbúð í fyrra.

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef stjórnarráðsins sem birt var í gær. Umfjöllunin byggist á efnahagskaflanum í nýútkominni fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027. 

Íbúðaverð á landsvísu hefur hækkað um 29 prósent síðan að kórónuveirufaraldurinn hófst í ársbyrjun 2020. Samkvæmt fjárhagsáætluninni er helsta ástæðan fyrir þessu lækkun vaxta á íbúðalánum, sérstaklega óverðtryggðum lánum, á meðan að á heimsfaraldrinum stóð. Vextir hafa þó aftur byrjað að hækka aftur síðan þá. Samhliða þessu hefur lítill vöxtur í framboði nýrra íbúða haft töluverð áhrif. 

Samkvæmt stjórnarráðinu kemur þessi hækkun greiningaraðilum á óvart. 

Eftirspurn eykur hækkun enn frekar 

Aðrar ástæður fyrir þessari hækkun er að ráðstöfunartekjur einstaklinga hafa hækkað síðastliðin ár. Þar að auki hefur smekkur og þarfir einstaklinga breyst undanfarið samkvæmt stjórnarráðinu. Þessi breyting birtist helst í mikilli eftirspurn eftir sérbýli. 

Hins vegar hefur raunverði íbúða hækkað um sextán prósent. Sú hækkun sker sig ekki úr í samanburði við nágrannalönd.  

Metfjöldi keypti sína fyrstu íbúð 

Þrátt fyrir þessa töluverðu hækkun á fasteignaverði hafa aldrei fleiri keypt sína fyrstu íbúð frá upphafi mælinga.  

Tæplega 7.000 manns keyptu sína fyrstu íbúð árið 2021 en það er töluvert meira en 2020 þar sem rúmlega 6.000 manns keyptu sína fyrstu íbúð það árið. Að mati stjórnarráðsins benda þessar tölur til þess að þeir þættir sem hafa auðveldað fyrstu kaup vegi þyngra en hækkun fasteignaverðs. 

Meðalaldur fyrstu kaupenda var í fyrra 30 ára sem er einu ári yngra en fyrir áratugi síðan.  

Þessi mikla eftirspurn eftir húsnæði hefur hækkað fasteignaverð enn frekar. Íbúðum á sölusíðum fækkar hratt og sú þróun eykur verulega á verðþrýsting.  

Húsnæðisverð líklegt til að hækka enn frekar 

Samkvæmt stjórnarráðinu tekur það íbúðaverð talsverðan tíma að bregðast við breyttum efnahagsaðstæðum og rannsóknir sýna fram á að líklegt er að húsnæðisverð hækki áfram fyrst það hafi hækkað mikið á undangengnu ári.  

Samkvæmt rannsókn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins getur hækkun húsnæðisverð komið af stað sjálfnærandi ferli þar sem aukið verðrými húsnæðiseiganda eykur kaupgetu þeirra. Kann þetta að skýra hvers vegna húsnæðisverð hækkar enn hratt þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá því að vaxtalækkanir tóku enda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka